Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Virkni eldgossins nokkuð stöðug
VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 18. mars 2024 kl. 12:21

Virkni eldgossins nokkuð stöðug

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum. Virkustu gígarnir eru sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim er hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg á aðfararnótt sunnudags. Þetta kemur fram í frétt frá Veðurstofu Íslands.

Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamynd sem var tekin kl. 14:56 í gær, 17. mars. Sjá á meðfylgjandi korti. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Ef veðuraðstæður leyfa verður farið í mælingaflug yfir gosstöðvarnar síðar í dag sem gæfi nákvæmari tölur um flatarmál en einnig rúmmál hraunsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kort18032024

Útlínur hraunsins teiknaðar eftir tveimur gervitunglamyndum frá Iceye. Fyrri myndin var tekin 17. mars kl: 01:55 (appelsínugulur litur), sem er um fimm og hálfri klukkustund eftir að eldgosið hófst. Seinni myndin var tekin kl: 14:56 17. mars og útlínur hraunsins, eins og það var þá, sýnt með rauðum lit. Fjólubláir litir sýna hraunbreiður frá fyrri gosum. 

Husafell_PTZ_2024_03_18_08_48_29

Gossprungan eins og hún var um kl. 8:45 í dag. Til hægri á myndinni sést í Stóra-Skógfell en vinstra megin í Sýlingarfell. Virkustu gosopin eru austan við Sýlingarfell, sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld. Í fréttauppfærslu í gær var birt mynd frá sama sjónarhorni, en þá sást virkni í nyrstu gosopunum sem ekki sést lengur.

Veðurspá fram eftir degi er suðaustan- og austan 8-13 m/s á gosstöðvunum en síðan hægari sunnan og suðvestanátt. Gasmengun berst þá til norðvesturs og vesturs, en norðurs seinnipartinn. Talsverð óvissa er í styrk gasmengunar. Suðvestan 10-18 á morgun og mun gasmengunin þá fara til norðausturs. Ólíklegt er að gasmengun berist til Höfuðborgarsvæðisins vegna hvassviðris. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Gasdreifing-18032024

Lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum á umbrotasvæðinu og reyndar á Reykjanesskaganum öllum. Aðeins örfáir litlir skjálftar. Hættumat verður uppfært seinna í dag.