Virkjun opnar aftur 19. ágúst
Nýjir sjálfboðaliðar ráðnir fyrir haustið
Virkjun mannauðs og tómstunda sem staðsett er á Ásbrú mun opna aftur starfsemi sína þann 19. ágúst kl. 8. Opnunartíminn er sem hér segir: mánudagur til fimmtudags, opið frá 8 til 16. Á föstudögum er opið frá 8 til 14. Lokað er um helgar og á rauðum dögum í almanaki.
Stjórn Virkjunar réð nýverið tvo sjálfboðaliða, þá Pál Árnason og Óla Ólsen til þess að halda utan um starfsemi Virkjunar næsta starfsár en nánari dagskrá verður auglýst síðar.
Meginmarkmið Virkjunar er að skapa virkniúrræði fyrir alla einstaklinga sem eiga það á hættu að falla í gryfju aðgerðarleysis og vonleysis í kjölfar erfiðleika. Mikil áhersla er lögð á hópastarf og gildi þess fyrir einstaklinginn og samfélagið.
Virkjun mannauðs og tómstunda á Reykjanesi hóf starfsemi sína í byrjun árs 2009 og hefur verið til húsa í byggingu 740 á Ásbrú. Sveitarfélögin á Reykjanesi, verkalýðsfélög og fyrirtæki, menntastofnanir eins og Keilir, Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum bjóða í sameiningu upp á fjölbreytt nám fyrir þá sem leita nýrra tækifæra.