Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Virkjun formlega opnuð
Fimmtudagur 15. janúar 2009 kl. 18:42

Virkjun formlega opnuð



Virkjun, miðstöð fyrir fólk í atvinnuleit opnaði á Vallarheiði nú síðdegis, 15. janúar. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sagði Virkjun sýna frábæra samstöðu á Reykjanesi og að þetta vera besti dagurinn frá upphafi kreppunnar en hann var nýkominn úr stóriðjuskóla álversins í Straumsvík þar sem útskrifaðir voru 300 stóriðjunemendur. Björgvin sagði líka í ræðu sinni að álver í Helguvík myndi verða stærsti þátturinn í uppbyggingu atvinnulifsins á næstunni þar sem 3-4 þúsund störf myndu skapast.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölmargir voru viðstaddir formlega opnun í byggingu 740 sem áður hýsti m.a mikilvægustu deild Varnarliðsins á tímum hersins,.launadeildina. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri Reykjanesbæjar sagði að ótrúlega margir hefðu komið að þessu verkefni og að framundan væru fjölmörg tækifæri þó staðan væri dökk í dag. Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði að Kadeco, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefði lagt til 1600 fermetra húsnæði og bæri að þakka skilning og jákvæðni félagsins. Kynnt var vegleg dagskrá í Virkjun á næstunni en á boðstólum eru fjölmörg námskeið og kynningar sem Anna Lóa Ólafsdóttir frá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sagði frá. Þór Sigfússon frá Samtökum atvinnulífsins og Keflvíkingurinn Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ lofuðu framtakið og voru þrátt fyrir allt bjartsýnir á framtíðina. Þór sem er bróðir bæjarstjóra Reykjanesbæjar sagði að viðskiptalífið biði eftir því að ríkisvaldið lækkaði stýrivexti og að bankarnir vöknuðu til lífsins. Þá myndu hjól atvinnulífsins fara að rúlla á nýjan leik.

Virkjun verður opin alla virka daga frá 9-16 og eru allir velkomnir. Hún er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Vinnumálastofnunar, verkalýðsfélaga, fyrirtækja og menntastofnana á svæðinu s.s. Keilis, miðstöð vísinda og fræða, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.

Markmiðið með rekstri Virkjunar er að byggja upp starfsemi fyrir íbúa á Reykjanesi sem leita nýrra tækifæra í atvinnu eða námi. Þá verður Virkjun ekki síður samkomustaður fólks sem vill breyta því áfalli sem atvinnuleysi er í ný tækifæri á atvinnumarkaði með námi, námskeiðum, tómstundum og menningarstarfsemi en hlutfall atvinnulausra á landinu er hæst á Suðurnesjum þar sem nú eru 1.400 einstaklingar á atvinnuleysisskrá.

Fjölmargir voru viðstaddir opnun Virkjunar í dag.


Sóknarprestarnir Baldur Rafn Sigurðsson og Skúli Ólafsson voru í sóknarhug og blessuðu Virkjunina.


VF-myndir/pket.