Virk styrkir Björgina
Björgin, geðræktarmiðstöð Suðurnesja, hlaut á dögunum styrk til virkniúrræða frá Virk starfsendurhæfingasjóði. Alls voru veittar átta milljónir í styrki til átta virkniúrræða víðs vegar um landið. Að sögn Díönu Hilmarsdóttur, forstöðukonu Bjargarinnar, skiptir styrkurinn Björgina og starfsemina þar gríðarlega miklu máli. „Við höfum þörf fyrir góðan stuðning við Björgina til að geta haldið áfram að bjóða upp á þá þörfu og góðu þjónustu sem við erum að gera í dag,“ segir hún.
Á bilinu 25 til 45 manns koma daglega í Björgina. Árið 2015 sóttu 689 manns þangað þjónustu af einhverju tagi, svo sem hin ýmsu námskeið, athvarf, endurhæfingu, geðlækni, ráðgjöf og viðtöl. „Það er aukning á milli ára hjá okkur. Þörfin fyrir starfsemi eins og Björgina er alltaf að aukast. Við fengum til að mynda 7.855 heimsóknir árið 2014 á móti 8.606 árið 2015.“
Lykilstarfsemi Bjargarinnar er athvarf með reglubundinni daglegri iðju og félagslegum stuðningi allt þátttakendum að kostnaðarlausu. Þjónustan miðar að því að bæta þjónustu í heimabyggð við einstaklinga sem glíma við geðrænan vanda og til að rjúfa félagslega einangrun.
Í tilkynningu frá Virk segir að markmiðið með styrkveitingunum sé að stuðla að samstarfi við aðila sem veita opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra.