Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinstri Grænir: tillögur að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum
Fimmtudagur 26. júní 2003 kl. 13:49

Vinstri Grænir: tillögur að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum

Í grein undir yfirskriftinni „Áfram Suðurnes“ sem birtist í Morgunpósti á vef Vinstri Grænna í gær er komið fram með tillögur að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum ef Varnarliðið skyldi fara. Í greininni er komið fram með fjölmargar hugmyndir, s.s. að innanlandsflugið yrði flutt á Keflavíkurflugvöll. Að Landhelgisgæslan yrði flutt í Helguvík ásamt Hafrannsóknarstofnun og loks er lagt til að tekin verði í notkun lest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Í lok greinarinnar segir: „Brotthvarf hersins verður ugglaust mörgum sorgarstund. Morgunpósturinn hvetur þá sömu til þess að taka sér tak og sjá þau stórkostlegu tækifæri sem brotthvarfið getur haft í för með sér. Einu sinni sem oftar stendur þjóðin frammi fyrir því að koma byggðarlagi til hjálpar sem stendur frammi fyrir breyttum aðstæðum. Það er eðlilegt að stjórnvöld axli þá ábyrgð enda þjóðinni allri til heilla að byggð haldist út um allt land og þar séu fjölbreytt atvinnutækifæri og möguleikar til menntunnar.

Brotthvarf hersins er því í rauninni kærkomið tækifæri til þess að hugsa upp á nýtt og komast frá einhæfum patentlausnum sem einkennt hafa svo mjög alla umræðu um atvinnu- og byggðamál þjóðarinnar. Her eða álver leysir engan vanda eitt og sér – það þarf framsækni, áræðni og fjölbreytni ætli þjóðin að halda byggð og atvinnu í landinu.“


Greinin sem birtist í Morgunpósti á vef Vinstri Grænna í gær.

Áfram Suðurnes!



Kannski er herinn að fara og allt virðist þá vera ónýtt – ef marka má svartsýnisrausarana í ríkisstjórninni. Aðallega mun þetta hafa áhrif á einhæft atvinnulíf á Suðurnesjum. En er þetta það versta sem gæti hent Suðurnesjamenn og Íslendinga eða er þetta kannski mikið gæfuspor? Morgunpósturinn tók saman nokkrar tillögur sem mætti skoða og útfæra sem „mótvægisaðgerðir” eða tækifæri Suðurnesjamönnum til handa.

Reykjavíkurflugvelli verður lokað og allt innanlandsflug fært til Keflavíkur. Það myndi auka umferð um völlinn umtalsvert sem aftur kallar á aukningu vinnuafls. Þetta myndi auk þess kalla á aukningu þjónustu á og við flugvallarsvæðið. Hótel- og afþreyingartilboð fyrir farþega, sem væru að bíða eftir flugi innan- eða utanlands, væru nauðsynleg. Auk þess gefur slíkur flugvöllur og Suðurnesjasvæðið allt mikla möguleika til uppbyggingar hótela og ráðstefnumiðstöðva.

Til þess að keppa við einkabílinn, þegar Keflavík tekur yfir innanlandsflugið, er mikilvægt að taka í notkun lest á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Góðar lestarsamgöngur gera innanlandsflugið að raunhæfum kosti – þrátt fyrir fjarlægðina frá höfuðborginni. Lestin gerir auk þess höfuðborgarsvæðið og Reykjanesbæ að einu íbúa- og atvinnusvæði. Landsbyggðarfólk þarf ekki að kvíða því að erfiðara verði að sækja höfuðborgina heim – það tapast kannski 15-20 mínútur með þessu, sem varla getur talist stórkostlegt. Þetta sparar einnig mikinn tíma fyrir ferðamenn – íslenska og erlenda sem þurfa að komast frá landsbyggðinni til útlanda og öfugt. Við uppbyggingu lestarinnar skapast einnig atvinna, bæði við lagningu, við hönnun og þannig mætti lengi telja.

Margir hafa gagnrýnt hugmyndir um flutning flugvallarins í ljósi þess að þannig hverfi hlekkur í öryggisneti Íslendinga þar sem lengra verður frá flugvellinum á bráðasjúkrahús. Því ekki að kanna kostnaðinn og þann ávinning sem mætti hafa af því að reka bráðasjúkrahús í Reykjanesbæ? Mikilvægast er að hugsa djarft og hætta að loka sig inni með afturhaldsfullum kreddukenningum.

Öll starfsemi Landhelgisgæslunnar verði flutt til Helguvíkur. Landhelgisgæslan er nú með starfsemi á Reykjavíkurflugvelli og í Reykjavíkurhöfn. Með því að flytja höfuðstöðvar hennar og alla starfsemi á Miðnesheiðina og í Helguvík skapast fjölmörg atvinnutækifæri fyrir Suðurnesjamenn. Auk þess þarf augljóslega að fjölga í þyrlu-, flugvéla-, og skipaflota gæslunnar svo hún geti sinnt því eftirlits- og öryggishlutverki sem henni ber samkvæmt lögum. Þyrlusveitar hersins nýtur ekki við í framtíðinni og þarf að taka tillit til þess.

Einnig mætti flytja starfsemi Hafrannsóknarstofnunar til Helguvíkur eða Reykjanesbæjar. Það kallar vissulega á uppbyggingu sjávarútvegsdeildar Háskóla Íslands á svæðinu – en því ekki? Fjölbreytni er lykillinn og í stað einhæfni í störfum, sem fylgt hefur veru hersins á Miðnesheiði, tækju við fjölbreytt atvinnutækifæri, sem vissulega gætu kostað þjóðarbúið eitthvað til að byrja með en langtímaávinningur væri umtalsverður.

Efla þarf möguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að hefja rekstur á Suðurnesjasvæðinu. Í þessum efnum er ágætt að líta til þess sem vel hefur tekist og er fyrirtæki eins og Kaffitár í Reykjanesbæ gott dæmi um lítið fyrirtæki sem vel hefur tekist til með. Vert að benda á verkefnið Auður í krafti kvenna í þessu samhengi.

Hvalaskoðun hefur verið vaxandi atvinnugrein á Suðurnesjum. Skoða verður hvað tapast við það ef Íslendingar hefja hvalveiðar að nýju enda getur það skipt atvinnusvæði eins og Suðurnes miklu að það sé stigið varlega til jarðar í þeim efnum. Ef hvalveiðar draga úr ásókn ferðamanna í hvalaskoðunarferðir þarf að endurskoða veiðarnar – með hagsmuni byggðarlaga eins og Reykjanesbæjar að leiðarljósi.

Brotthvarf hersins verður ugglaust mörgum sorgarstund. Morgunpósturinn hvetur þá sömu til þess að taka sér tak og sjá þau stórkostlegu tækifæri sem brotthvarfið getur haft í för með sér. Einu sinni sem oftar stendur þjóðin frammi fyrir því að koma byggðarlagi til hjálpar sem stendur frammi fyrir breyttum aðstæðum. Það er eðlilegt að stjórnvöld axli þá ábyrgð enda þjóðinni allri til heilla að byggð haldist út um allt land og þar séu fjölbreytt atvinnutækifæri og möguleikar til menntunnar.

Brotthvarf hersins er því í rauninni kærkomið tækifæri til þess að hugsa upp á nýtt og komast frá einhæfum patentlausnum sem einkennt hafa svo mjög alla umræðu um atvinnu- og byggðamál þjóðarinnar. Her eða álver leysir engan vanda eitt og sér – það þarf framsækni, áræðni og fjölbreytni ætli þjóðin að halda byggð og atvinnu í landinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024