Vinnustöðvun boðuð á flugvöllum í fyrramálið
Samkomulag náðist ekki í kjaraviðræðum flugvallarstarfsmanna.
Samkomulag náðst ekki í kjaraviðræðum flugvallastarfsmanna hjá Sáttasemjara í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia sem send var út rétt í þessu. Annar fundur er boðaður kl. 15 á morgun. Boðuð vinnustöðvun verður á öllum flugvöllum frá kl 4 til kl 9 í fyrramálið og flugfarþegar geti búist við 3 – 4 klst. seinkun á Keflavíkurflugvelli og um 2 klst. seinkun á Reykjavíkurflugvelli á umræddu tímabili.
Unnið verður eftir viðbragðsáætlun sem miðar að því að takmarka sem mest röskun og óþægindi. Farþegum er bent á að fylgjast með tilkynningum á vefsvæðum flugfélaganna, Keflavíkurflugvallar eða Isavia um breytingar sem kunna að verða á flugáætlun.
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli verður opin og farþegar Icelandair geta notað sjálfsinnritunarstöðvar fyrir kl 9 en hefðbundin innritun, farangursafhending og vopnaleit hefst ekki fyrr en eftir kl 9. Farþegar komast því ekki inn á fríhafnarsvæði eða að brottfararhliðum fyrr en eftir þann tíma.