Vinnuslys, áfengisþjófnaður og innbrot
Slípirokkur hljóp í hönd manns sem var við vinnu sína í íþróttahúsi í Reykjanesbæ. Maðurinn var að skera stálbita þegar óhappið var. Hann hlaut skurð á hendi og fór á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. Þaðan fór hann á Landspítala þar sem áverkarnir voru rannsakaðir nánar.
Sviptur í hraðakstri
Ellefu ökumenn hafa á undanförnum dögum verið staðir að því að aka yfir leyfilegum hámarkshraða í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sá sem hraðast ók mældist á 150 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Hann hafði verið sviptur ökuréttindum síðan í vor. Að auki var ökumaður handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá voru klippt skráningarnúmer af fjórum bifreiðum þar sem þær reyndust vera ótryggðar.
Innbrot í golfskála
Brotist var inn í golfskálann í Grindavík í fyrradag. Þegar lögreglan á Suðurnesjum kom á vettvang mátti sjá að gluggi hafði verið spenntur upp með spýtu, sem lá fyrir neðan hann. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort einhverju var stolið, en lögregla rannsakar málið.
Áfengisþjófur tekinn
Þjófnaður á áfengi var tilkynntur til lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Karlmaður hafði komið inn í vínbúðina í Njarðvík, tekið þar áfengispela og látið sig hverfa án þess að borga. Lýsing á manninum lá fyrir og fann lögregla hann skömmu síðar. Hann var færður á lögreglustöð, þar sem tekin var af honum skýrsla, og honum síðan sleppt.