Mikill viðbúnaður vegna slyss við löndun

Starfsmaður löndunarfyrirtækis fótbrotnaði illa í vinnuslysi um borð í fiskiskipinu Kristínu GK í Grindavíkurhöfn í morgun. Maðurinn var fluttur á Landspítalann þar sem hann undirgengst nú aðgerð.
 
Löndun var nýhafin úr skipinu en maðurinn sem slasaðist var í lest skipsins og varð fyrir fiskikörum fullum af fiski sem féllu niður í lestina eftir að festing á einu karinu gaf sig.
 
Sigurður Bergmann, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni í Grindavík, fór á vettvang slyssins í morgun. Hann sagði að hinn slasaði hafi bersýnilega verið fótbrotinn en hann var með illa brotinn sköflung. Þá höfðu menn af því áhyggjur þegar hjálmur var tekinn af manninum að það blæddi úr eyra hans og óttuðust menn höfuðáverka. Blæðingin var hins vegar minniháttar.
 
Aðstæður á slysstað voru erfiðar og vont að komast að hinum slasaða þar sem hann lá á lestargólfinu. Björgunarsveitin Þorbjörn var kölluð til með sigbúnað en svo fór að skipskraninn var notaður til að lyfta sjúkrakörfu með hinum slasaða upp úr lestinni.
 
Mikill viðbúnaður var á slysstaðnum við Grindavíkurhöfn. Þar var fjölmennt lið frá lögreglu, sjúkralið, slökkvilið og fólk frá Björgunarsveitinni Þorbirni. Einnig var kallaður læknir á staðinn og samstarfsmenn úr löndunarþjónustunni aðstoðuðu einnig við að koma hinum slasaða í land.
 
Hann var fluttur beint á Landspítalann í Fossvogi þar sem hann undirgekkst rannsóknir og er núna kominn í aðgerð þar sem gert er að fótbrotinu, sem var ljótt að sjá, samkvæmt upplýsingum lögreglu.