Vinnuhópur skoðar samhæfingu HSS og Landspítala
Heilbrigðisráðherra hefur skipað vinnuhóp sem hefur það hlutverk að útfæra hugmynd hans um samhæfingu Landspítala og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þetta kom fram hjá heilbrigðisráðherra á Alþingi í gær þegar hann svaraði fyrirspurn um málið frá Björk Guðjónsdóttur, Sjálfstæðisflokki.
Ráðherra sagðist leggja sérstaka áherslu á að kalla til viðræðna bæði fagfólk en ekki síður fulltrúa þessara almannasamtaka og átti þar við Hollvinasamtök HSS, en ráðherra kallaði einmitt Hollvinasamtök St. Jósefsspítala til vegna samhæfingar þess spítala við LSH. Þá leggur ráðherra áherslu á að fulltrúi frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sé í nefndinni enda hefur HSS þjónað svæðinu öllu.
Nefndinni er gert að skila útfærslu sinni 16. mars nk. Fram kom í umræðunum á Alþingi í dag að heilbrigðisráðherra, og forveri hans í embætti, að offramboð væri á skurðstofuaðstöðu á S-Vesturhorni landsins, segir í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins.
Mynd: Heilbrigðisráðherra heimsótti HSS í byrjun vikunnar. Ljósmynd: Páll Ketilsson