Vinnudagurinn byrjar á íslenskukennslu
Í fyrirtækinu Nesbyggð í Reykjanesbæ byrjar dagurinn í vinnunni á fremur óhefðbundinn hátt. Starfsmennirnir setjast nefnilega á skólabekk klukkan átta, læra íslensku fyrsta klukkutímann og eru á kaupi á meðan.
Þetta fyrirkomulag, að íslenskukennarinn komi í fyrirtækið, er að færast í vöxt og hefur einnig verið tekið upp t.d. hjá Bláa lóninu. Guðjónina Sæmundsdóttir hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum segir þessa tímsetningu kennslunnar koma vel út því starfsmennirnir þurfi þá ekki að koma á kvöldin í nám, þreyttir eftir vinnudaginn.
Í umræðunni um málefni og aðlögun innflytjenda hefur gjarnan verið drepið á mikilvægi tungumálsins. Ríkisstjórnin hefur lagt aukna áherslu á íslenskukennslu og sett í það aukið fjármagn sem hefur skilað sér í því að námskeiðsgjöld hafa lækkað stórlega og ýtt undir fyrirtækin að nýta sér þá þjónustu sem í boði er í þessum efnum.
„Við kennum í öllum byggðalögum Suðurnesja ef þátttaka næst. Kennarar okkar fara gjarnan í fyrirtækin og kenna. Núna erum við t.d. að kenna í Bláa lóninu tvo morgna í viku, einnig í fyrirtækinu Nesbyggð. Starfsmennirnir fá að nýta fyrsta klukkutímann í vinnu til að læra íslensku. Það er í rauninni frábært því þá þurfa starfsmennirnir ekki að koma þreyttir að kvöldi til í námið. Einnig höfum við sett upp kennslu í vaktafríum fyrir sum fyrirtæki,“ segir Guðjónína.
Páll Harðarson, framkvæmdastjóri Nesbyggðar, segir þetta fyrirkomulag koma vel út og starfsmennirnir séu ánægðir með það. Um er að ræða 25 manna hóp starfsmanna frá Póllandi og Litháen en hópnum er skipt í tvennt og hvor hópurinn fær kennslu þrisvar í viku. Á föstudögum koma hóparnir svo saman.
Guðjónína segir mikilvægt að yfirmenn fyrirtækja og starfsmenn almennt geri sér grein fyrir hvernig þau geti aðstoðað við að innflytjendur aðlagist samfélaginu. Atvinnurekendur geti hvatt innflytjendur til að fara á námskeið og læra íslensku. Samstarfsfólk geti kennt nýbúum um samfélagið, talað íslensku og þar með hjálpað þeim við að læra málið. „Það er alveg ljóst að lítill árangur næst í tungumálakennslu ef tungumálið er ekki notað fyrir utan hina hefðbundnu kennslu,“ segir Guðjónína.
Mynd: Erlendir starfsmenn Nesbyggðar fá íslenskukennslu í morgunsárið hjá Sveindísi Valdmarsdóttur, kennara.
VF-mynd:elg