Vinnubíllinn á hvolf í snæðingnum
Óvenju mikið hefur verið um umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum. Bifreiðareigandi sem sat að snæðingi heima hjá sér heyrði allt í einu ógnarhávaða fyrir utan hús sitt. Þegar hann gekk út til að athuga hvað væri á seyði lá vinnubíllinn hans á hvolfi fyrir utan útidyrnar. Öðrum bíl hafði verið ekið á hann með þessum afleiðingum. Sá bíll endaði einnig á hvolfi ofan á grindverki. Ökumaður hans var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar.
Þá varð þriggja bíla árekstur þegar bifreið var ekið aftan á aðra, sem við það hentist á bílinn fyrir framan. Engin slys urðu á fólki en bílarnir skemmdust allir.
Fjórir ökumenn lentu í útafakstri. Þrír þeirra voru í mikilli hálku á Reykjanesbraut og hjá þeim fjórða fauk vélarhlíf bifreiðarinnar skyndilega upp með ofangreindum afleiðingum.
Loks urðu tveir minni háttar árekstrar, þar sem skemmdir urðu á bifreiðum en fólk sakaði ekki.