Vinna skal að öllum verkefnum á fordómalausan og yfirvegaðan hátt
„Samfylkingin í Reykjanesbæ harmar þá óyfirveguðu og óvönduðu umræðu sem skapast hefur í kringum fréttir af áætlun fyrirtækisins ECA Program um að hefja starfsemi hér á landi. Starfsemin byggist á sömu forsendu og fjöldi íslenskra fyrirtækja sem til margra ára veittu fjölda íslendinga störf á Keflavíkurflugvelli. Verkefnið er rekstur og viðhald vopnlausra flugvéla sem notaðar verða til æfinga erlendis og flogið af atvinnuflugmönnum. Standa vonir til þessað fyrirtækið muni skapa fjöldan allan af vellaunuðum hátæknistörfum á því landsvæði þar sem atvinnuleysið er hvað mest“.
Þetta kemur m.a. fram í ályktun sam samþykkt var samhljóða á fjölmennum aðalfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ á miðvikudagskvöld.
„Staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum kallar á að stjórnvöld kanni allar þær hugmyndir sem fram koma um atvinnusköpun til fulls áður en afstaða er tekin til þeirra.
Samfylkingin í Reykjanesbæ treystir ríkisstjórninni til þess að vinna óhikað áfram að þeim fjölmörgu verkefnum sem í farvatninu eru; t.d. álveri í Helguvík, gagnaverinu á Ásbrú og hugmyndum um heilsutengda ferðaþjónustu á Ásbrú á fordómalausan og yfirvegaðan hátt.
Þeir rúmlega 1800 Suðurnesjamenn sem nú eru á atvinnuleysisskrá treysta ríkisstjórninni til að bregðast rétt við í þeirra málum,“ segir jafnframt í ályktuninni.