Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Vinna nýrrar bæjarstjórnar tefst um viku
    Nýr meirihluti sem skv. öllu tekur við 24. júní.
  • Vinna nýrrar bæjarstjórnar tefst um viku
Mánudagur 16. júní 2014 kl. 13:35

Vinna nýrrar bæjarstjórnar tefst um viku

Fengu ekki heimild til að hafa bæjarstjórnarfund 18. júní.

Nýr meirihluti Frjáls afls, Samfylkingar og Beinnar leiðar fékk höfnun frá núverandi forseta bæjarstórnar um að halda sinn fyrsta bæjarstjórnarfund þann 18. júní og auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra í framhaldi af því. Það er á forræði Böðvars Jónssonar, sem lengsta setu hefur í bæjarstjórn, að boða til fyrsta bæjarstjórnarfundar. Boða verður til fundarins innan 30 daga frá því að kosning fer fram.

„Þetta er í samræmi við það sem er að gerast í öðrum sveitarfélögum. Í Reykjavík er haldinn borgarstjórnarfundur 16. júní og á Akureyri og Hafnarfirði þann 18. júní,“ segir Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar og verðandi bæjarstjórnafulltrúi í samtali við Víkurfréttir. Leitað hafi verið til Böðvars með viku fyrirvara um boðun fundar en boða þarf fyrsta bæjarstjórnarfund með fjögurra daga fyrirvara. „Þrátt fyrir þessa ósk nýs meirihluta um boðun fundar á þessum tíma hafnaði Böðvar þessari  beiðni og boðar til fundarins viku seinna en nýr meirhluti hafði farið fram á.“ Þá hafi Böðvari einnig verið send fyrirspurn 12. júní um hvort sjálfstæðismenn myndu gera ágreining um það ef auglýst yrði eftir nýjum bæjarstjóra áður en ný bæjarstjórn kæmi saman. „Því erindi hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekun þar um. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti og Sambandi sveitarfélaga er hér um um einsdæmi að ræða þ.e að ekki skuli vera farið að ósk nýs meirihluta um boðun fundar,“ segir Guðbrandur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttir höfðu samband við Böðvar Jónsson, sem staddur var í vinarbæjarheimsókn í Finnlandi. Hann segist hafa séð einhverja ítrekun frá Guðbrandi í tölvupósti sem hann var ekki búinn að lesa nánar. „Bæjarstjórnarfundurinn er haldinn þegar ég boða til hans því ég hef lengsta setu í bæjarstjórn. Hann hefur verið boðaður 24. júní og búið er að tilkynna um það. Þeir voru með einhverjar hugmyndir um að halda hann fyrr en ég er bara á vegum bæjarstjórnar hérna erlendis,“ segir Böðvar. 

Spurður um ástæðu þess að fundurinn sé ekki haldinn fyrr segir Böðvar að hefðbundinn fundardagur bæjarstjórnar sé þriðjudagur. „Þegar hann kemur upp 17. júní þá er bara eðiliegt að boða hann næsta þriðjudag á eftir.“ Spurður um hvort ekki hefði verið hægt að halda hann t.d. 18. júní segir Böðvar að það hefði einfaldlega ekki hentað sér, hann verði upptekinn þann dag og einnig daginn eftir. „Við erum vön að halda bæjarstjórnarfundi á þriðjudögum og fannst eðlilegt að halda hann 24. af því að 17. júní kemur upp á þriðjudegi.“ Jafnframt segist Böðvar ekki fengið neinar beiðnir um þetta fyrr en hann fékk tölvupóst frá Friðjóni [Einarssyni] bara fyrir nokkrum dögum. „Þá var ég kominn erlendis. Ég tilkynnti honum þá bara að fundurinn yrði þann 24.,“ sagði Böðvar.