Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vinna 190 tonn af hrognum á sólarhring
Föstudagur 6. mars 2015 kl. 11:36

Vinna 190 tonn af hrognum á sólarhring

– og skólafólk vinnur sér inn góðar tekjur á næturvöktum

Þetta vef vel af stað hjá okkur. Við erum búnir að tæknivæða verulega hjá okkur frá því fyrir ári síðan. Það hefur verið talsvert um brælur á miðunum en þetta byrjar vel hjá okkur. Tvo fyrstu dagana höfum við tekið inn um 300 tonn af hrognum til frystingar,“ segir Guðmundur Jens Guðmundsson framleiðslu- og útgerðarstjóri hjá Saltveri. Vinnsla á loðnuhrognum hófst hjá fyrirtækinu sl. sunnudag en fyrirtækið er það eina á Suðurnesjum sem frystir loðnuhrogn.

– Þessi tæknivæðing skiptir sköpum fyrir ykkur.
„Hún er algjör bylting. Það er mikil sjálfvirkni í vinnslunni þannig að frá því hrognunum er sturtað í síló við upphaf vinnslulínunnar þá þarf mannshöndin að hafa fá inngrip þar til frosin loðnuhrognin eru komin í kassa og á bretti við hinn enda línunnar, þaðan sem þau fara í frystiklefa og svo í skip til Japan“.
Loðnuhrognin koma frá flokkunarstöðinni í Helguvík og eru flutt þaðan í körum á hafnarvog í Keflavík og þaðan í vinnsluna hjá Saltveri við höfnina í Njarðvík. Þar eru hrognin látin standa í körum í 12-24 tíma, allt eftir því í hvaða vinnslu þau fara. „Japanshrognin“ standa í 12 tíma en „iðnaðarhrognin“ standa í sólarhring. Hrognin fara svo í gegnum pokavélar sem mata tvo frysta. Út úr frystunum fara svo frosnar öskjur inn í pökkunarlínuna sem skilar afurðunum innpökkuðum í kassa og á vörubretti sem fara í frystiklefa og þaðan til útflutnings.

„Það eru margar hendur sem koma að þessu þrátt fyrir að vinnslan sé þó svo tæknivædd eins og raun ber vitni, en þetta gengur mjög vel,“ segir Guðmundur.

– Ástæða þess að þið farið í þessa tæknivæðingu er að það fékkst ekkert fólk til að vinna við loðnuna.
„Það var þannig árið 2006 þegar Þorsteinn Erlingsson byrjaði á þessu, þá leit ekki út fyrir að hægt væri að fá marga starfsmenn. Það hefur hins vegar breyst all verulega og nú eru margir sem sækja um vinnu þegar hrognavinnslan hefst“.

Saltver var fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að setja upp tæknivædda vinnslulínu fyrir hrognafrystinguna og síðan þá hafa samskonar vinnslulínur verið settar upp á nokkrum stöðum á landinu. Þorsteinn Erlingsson sé frumkvöðull á þessu sviði og framsýnn þegar kemur að þessari vinnslu sjávarafurða, segir Guðmundur.

– Þið eruð að fá þó nokkuð af skólafólki til ykkar.
„Já, það eru sennilega yfir 100 krakkar búnir að sækja um hjá mér fyrir sumarið þegar við förum í frystingu á makríl og svo erum við núna með um 20 ungmenni á næturvaktinni nú í loðnunni og eru örugglega dauðþreyttir í skólanum í dag,“ segir Guðmundur og brosir.

– og er þetta allt í lagi?
„Já, buddan verður í lagi hjá þeim og það er vonandi að skólinn sætti sig við það“.

– Hvað er vertíðin í hrognunum lögn hjá ykkur?
„Hún virðist ætla að vera löng núna. Hún er yfirleitt þrjár vikur en við erum að vonast til að fá fjórðu vikuna núna. Í góðum gangi er það að gefa okkur 190 tonn af hrognum á sólarhring. Þá hefur kvótinn verið aukinn þannig að þau fyrirtæki sem við vinnum fyrir eru komin með meiri loðnukvóta. Þá er vöntun á markaði. Það varð hrun á ansjósum í Suður Ameríku, sem veldur hækkunum á markaði. Þá veiddu Norðmenn ekki nóg í fyrra, þannig að það er góður seljendamarkaður“.

– Hvert fara afurðirnar frá ykkur?
„Þetta fer allt á Japansmarkað. Markaðir í Úkraínu og Rússlandi eru erfiðir núna. Sá markaður er sérstakur, eiginlega bara hættulegur í augnablikinu“.

– Það er af sem áður var þegar loðnuhrogn voru fryst í öllum frystihúsum á Suðurnesjum. Þið eruð einir eftir?
„Það er orðið lítið um þessa vinnslu í dag og við erum þeir einu sem sitjum að þessu. Við vinnum hrognin í verktöku fyrir Síldarvinnsluna, Samherja og Gjögur-samsteypuna. Þeir eiga skipin sem veiða þetta og loðnumjölsverksmiðjuna. Við erum þakklátir fyrir það að geta unnið með þeim. Við vinnum mikið með Síldarvinnslunni, Samherja og HB Granda og það skiptir okkur miklu máli“.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024