Vinaliðaverkefni gefur góða raun
- Skipuleggja leiki í frímínútum
Verkefninu Vinaliðum var hrundið af stað við Grunnskólann í Grindavík vorið 2015 og heldur áfram þetta skólaár. Markmiðið með verkefninu er að stuðla að fjölbreyttum leikjum í frímínútum og leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vinaböndum, minnka togstreitu og hampa góðum gildum, svo sem vináttu og virðingu og síðast en ekki síst stuðla að því að allir fái að vera með. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar. Þar segir að skólalóðin og frímínútur hafi samkvæmt rannsóknum reynst helsti vettvangurinn fyrir einelti. Þá segir á vef bæjarins að þetta hafi breyst í Grindavík og að það sé fyrst og fremst frábæru starfi þeirra sem stýra vinaliðaverkefninu og krökkunum að þakka.
Vinaliðar eru valdir tvisvar sinnum á skólaárinu í 2. til 6. bekk í leynilegu vali innan bekkja. Lögð er áhersla á að vinaliðar sýni öðrum nemendum bæði vináttu og virðingu. Þeir fá kennslu og þjálfun á leikjanámskeiðum sem vinaliðaverkefnið stendur fyrir. Þar fá vinaliðarnir fyrirlestra um hvernig þeir geti hvatt aðra nemendur til þátttöku, verið vinalegir og fullir virðingar. Síðan bera vinaliðar ábyrgð á að koma verkfærum og áhöldum á leikstaði í byrjun frímínútna og að ganga fram þeim aftur.