Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vinalegur bæjarlækur á Hafnargötuna?
Þriðjudagur 29. júlí 2003 kl. 11:05

Vinalegur bæjarlækur á Hafnargötuna?

Á fjölmennum kynningarfundi á dögunum þar sem framkvæmdir við Hafnargötuna voru kynntar samhliða því sem aðilar í verslun og þjónustu við götuna ræddu frekari uppbyggingu, var kastað fram fyrstu hugmynd að bæjarlæk við Hafnargötuna. Það var athafnamaðurinn Steinþór Jónsson sem nefndi bæjarlækinn til sögunnar, en hann sagðist hafa séð lítinn og sniðugan læk á ferð sinni erlendis í sumar.Víkurfréttum lék forvitni á að kynnast hugmynd Steinþórs aðeins betur, vitandi það að hann hafði myndir af læknum í fórum sínum. „Hér er aðeins um hugmynd að ræða, sem ég hef þó kynnt umhverfissviði Reykjanesbæjar og verktökum sem vinna við endurnýjun Hafnargötunnar,“ sagði Steinþór og bætir við: „Ég var á ferð erlendis þegar ég rakst á skemmtilega útfærslu á bæjarlæk við verslunargötu í smábæ. Ég tók nokkrar myndir af læknum og umhverfi hans, því þarna sá ég hlut sem ég tel að falli vel að aðstæðum við Hafnargötuna og vildi láta á það reyna einmitt nú þegar framkvæmdir og breytingar standa yfir“.

Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér er læknum fundinn staður á milli gangstéttar og götunnar. Útbúin hefur verið 30-60 sm. breiður farvegur niður eftir götunni og vatnið látið renna þar eftir. Lækurinn er síðan brotinn upp með litlum stíflum og leiktækjum. Þannig geta börn stíflað lækinn þar til hann flæðir um sérstakt yfirfall og þá má láta lækinn fossa áfram. Þarna eru ýmis form og sköpunargleðin látin ráða ferðinni. Dýpt vatnsins er 5-10 sentimetrar.

Steinþór segist sjá lækinn fyrir sér framan við Nýjabíó þaðan sem hann myndi renna og enda síðan í smátjörn neðan við Stapafell. Á næstu dögum mun Steinþór fylgja hugmyndinni enn frekar eftir og láta útfæra hana á okkar hátt, eins og hann orðaði það, þ.e. sníða hugmyndina að íslenskum aðstæðum og gera bæjarlækinn sérstakan fyrir Reykjanesbæ og sjá þá til hvort áhugi verði um að framkvæma hugmyndina þegar þessi hluti götunnar verður tekinn í gegn þegar á næsta ári.

Meðfylgjandi myndir sýna bæjarlækinn í smábænum erlendis. - Smellið hér!


VF-myndir: Steinþór Jónsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024