Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Viltu reka raftækjaverslun í flugstöðinni?
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 18. júní 2019 kl. 18:30

Viltu reka raftækjaverslun í flugstöðinni?

Isavia opnaði í gær fyrir aðgang að gögnum vegna útboðs á aðstöðu til reksturs raftækjaverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Óskað er eftir reynslumiklum aðila sem hefur yfir að ráða úrvali vörumerkja. Gerð er sú krafa að viðkomandi hafi rekið að lágmarki tvær raftækjaverslanir samhliða síðastliðin þrjú ár. Þar hafi vöruframboð samanstaðið af að minnsta kosti farsímum, spjaldtölvum, snjallúrum, myndavélum, heyrnartólum, litlum hátölurum og heimilistækjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um er að ræða tvær verslanir í norðurbyggingu flugstöðvarinnar. Önnur er um 158 m2 verslun á 2. hæð, ætluð farþegum á leið úr landi. Hin er um 30 m2 verslun á 1. hæð, ætluð komufarþegum.

Við útboðsferlið verður notast við samkeppnisviðræður í samræmi við 42. gr. reglugerðar um sérleyfi. Samið verður við þann aðila sem í lok útboðsferlisins skilar inn hagkvæmasta tilboði á grundvelli besta hlutfalls verðs og gæða.

Samningstíminn er þrjú ár með möguleika á tveggja ára framlengingu, eitt ár í senn. Þátttökufresturinn er til og með 9. ágúst 2019. Áætlað upphaf samningstímans er 1. janúar 2020.

Nánari upplýsingar um útboðsferlið og útboðsgögn vegna þess má finna hér.