Vilt þú hafa áhrif á uppbyggingu í Suðurnesjabæ
Suðurnesjabær heldur kynningarfund um mótun nýs aðalskipulags fyrir Suðurnesjabæ nk. fimmtudag kl. 19:30. Fundurinn fer fram í Vörðunn, Miðnestorgi 3.
Sökum sóttvarna er skráning þátttakenda nauðsynleg og þau sem ætla að mæta á fundinn eru beðin um að skrá sig með því að senda upplýsingar á netfangið [email protected]. Einnig er hægt að hringja í síma 425 3000. Þá verður hægt að fylgjast með streymi frá fundinum á facebook-síðu Suðurnesjabæjar og á facebook-síðu Víkurfrétta.
Á vefnum Betri Suðurnesjabær á betraisland.is er hægt að setja inn hugmyndir fyrir vinnu við aðalskipulagið og önnur verkefni sem nú eru í vinnslu hjá Suðurnesjabæ, segir í tilkynningu frá Suðurnesjabæ.
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti þann 3. mars 2021 að skipulags- og matslýsing aðalskipulags Suðurnesjabæjar verði kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Jafnframt verði leitað umsagnar hjá Skipulagsstofnun og hjá þeim umsagnaraðilum sem tilgreindir eru í lýsingunni.
Nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar felur í sér endurskoðun gildandi aðalskipulaga, þ.e. Aðalskipulags Garðs 2013-2030 og Aðalskipulags Sandgerðisbæjar 2008-2024. Innan sveitarfélagamarka er einnig í gildi Aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2013-2030, en það er ekki hluti af endurskoðuninni.