Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Villtar kanínur dafna vel í Sólbrekkuskógi
Mánudagur 5. október 2009 kl. 11:12

Villtar kanínur dafna vel í Sólbrekkuskógi


Meðfylgjandi ljósmyndir tók Ellert Grétarsson, ljósmyndari Víkurfrétta, í Sólbrekkuskógi í gær en þar hafast við villtar kanínur í ýmsum litaafbrigðum. Virðast þær dafna vel og mátti sjá talsverðan fjölda þeirra spóka sig í góða veðrinu í gær.

Ljóst er að á nokkrum stöðum hérlendis eru kanínur orðnar hluti af dýralífi Íslands, s.s. í Öskjuhlíðinni og Heiðmörk.  Finnst mörgum þetta vera góð viðbót við annars fátæka spendýrafánu landsins. Ekki eru allir sáttir við kanínur í náttúrunni hér á landi. Í Öskjuhlíðinni eiga þær til að éta ný blóm sem lögð hafa verið á leiði í Fossvogskirkjugaði. Á Heimaey, stærstu eyju Vestmannaeyja, hafa kanínur lagt undir sig lundaholur og hrakið lundana burt.

Villtum kanínum virðist hafa fjölgað hér á landi á undanförnum árum sem þakka má hagstæðu tíðarfari yfir vetrartímann. Með áframhaldandi hlýnun má reikna með verulegri fjölgun þeirra. Hér á Suðurnesjum hefur þeirra einnig orðið vart í skóglendinu við Háabjalla og undir Þorbirninum. Á sumrin lifa kanínur nær eingöngu á grasi en á veturna éta þær ber, rætur, jafnvel trjágreinar og annað sem er í boði úr jurtaríkinu hverju sinni.

Ljósmyndir/Ellert Grétarsson.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024