Villiköttur hertók heimili við Hafnargötu
Húsráðendur við í íbúðarhúsi við Hafnargötu í Keflavík þurftu að kalla til lögreglu eftir að villiköttur hafði hertekið heimili þeirra um miðja nótt nú um helgina.
Áður en lögreglan kom á svæðið hafði heimilisfólkið reynt allt til að koma kettinum út en án árangurs. Kötturinn varðist fimlega, gaf frá sér ógurleg óhljóð og þakkaði fyrir sig með því að hann drullaði á gólfið þannig að upp gaus mikil ólykt. Laganna verðir náðu hins vegar að hrekja dýrið á brott.
Í samtali við Víkurfréttir sagðist húsráðandinn vera orðinn ráðalaus yfir ágangi villikatta við Hafnargötuna. Ekki má skilja eftir opinn glugga öðruvísi en að kettir troði sér þar inn og ráðist á allt matarkyns í húsinu. Þá verði plöntur einnig fyrir barðinu á köttunum.
Viðmælandi blaðsins sagðist hafa reynt ýmis ráð til að losna við kettina, en án árangurs. Viðmælandinn sagði kettina ekki eingöngu herja á sig, því nágrannar hans hafi einnig orðið fyrir tíðum innbrotum katta, ef svo má segja. Þannig hafi einn nú nýlega komið inn um glugga í skjóli nætur og gætt sér á kjúklingi í eldhúsinu, þannig að aðeins beinin stóðu eftir.
Óþrifnaður af köttunum sé einnig talsverður. Þannig geri kettirnir stykkin sín á sólpalla fólks. Viðmælandinn sagði kettina í dag vera villiketti. Fyrir fáeinum árum hafi kona flutt í nágrennið með fjölda katta. Hún hafi flutt í burtu án kattanna sem síðan þá hafi fjölgað sér.
Aðspurður sagðist viðmælandi blaðsins hafa sett sig ítrekað í samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og aðra aðila sem málið varðar vegna ágangs kattanna en það hafi ekki borið tilætlaðan árangur.
Mynd: Villiköttur í grjótgarðinum neðan við Ægisgötu í Keflavík fyrr í sumar. Villikettir herja nú á íbúa við sjávarsíðuna og þurfti lögreglu til að reka út einn slíkan um helgina. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson