Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Villi á Vörinni ætlar að taka þátt í uppbyggingu Grindavíkur
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 1. mars 2024 kl. 15:56

Villi á Vörinni ætlar að taka þátt í uppbyggingu Grindavíkur

Það var nokkuð margt um manninn á Sjómannastofunni Vör þegar blaðamann bar að garði í hádeginu. Vilhjálmur Lárusson eða Villi kokkur eins og hann er líklega betur þekktur, bauð upp á dýrindis lambalæri og var vel látið af matseldinni. Villi er Grindvíkingur í gegn og ætlar sér að taka þátt í uppbyggingu bæjar síns.

Það er vika í dag síðan Villi opnaði og hann er ánægður með ganginn til þessa. „Ég opnaði síðasta föstudag og það hefur verið góður gangur í þessu, venjulega eru föstudagarnir rólegastir hjá mér en það var fínt í dag. Mánudagurinn var pakkaður, það er nóg af fólki inni í bænum að vinna, það þarf að borða. Ég mun halda áfram, bíð eins og aðrir eftir næsta eldgosi, vonandi kemur það upp á sem hentugustum stað, bærinn lokar rétt á meðan og svo bara fulla ferð áfram! 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég var með einhverjar fermingar bókaðar en eðlilega falla þær niður hér en ég er boðinn og búinn að sjá um veislur hér á suðvesturhorninu, ég var t.d. með brúðkaup um síðustu helgi, eldaði allt hér og var mættur með kræsingarnar inn í Voga þar sem veislan fór fram. Ég hvet þá sem vantar aðstoð til að hafa samband við mig, ég mun geta séð um fermingarveisluna.“

Hásetar

Vilhjálmur gerði garðan frægan á sínum tíma í hinum vinsælu þáttum Hásetarnir sem sýndir voru á Rúv. Í þáttunum gerðust sjónvarpsmennirnir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson sjóarar og bættust í áhöfnina á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni. Villi kokkur og Fannar mynduðu sterk tengsl í þáttunum og því var myndavélin nokkuð mikið á Villa. Villi var sem sagt kokkur á frystitogara en hann er í ársleyfi frá sjónum og eins og staðan er akkurat í dag gerir hann síður ráð fyrir að snúa til baka á hafið. 

„Þetta gengur vel og eitthvað togar í mig að halda áfram í þessu og taka þannig þátt í uppbyggingu bæjarins míns. Ég vil trúa því að við séum búin að snerta botninn og nú verði leiðin bara upp á við. Ég held að þessi eldgos muni koma upp fyrir utan Grindavík og þá erum við óhult, við rýmum jú bæinn rétt á meðan að eldgosið varir en svo snúum við til baka við fyrsta tækifæri. Förum svona inn og út á meðan þetta ástand varir og lærum einfaldlega að lifa með þessu. Grindavík er alltaf bærinn minn, þannig hefur það verið og þannig mun það alltaf verða,“ sagði kokkurinn hressi að lokum.

Föstudagarnir eru venjulega rólegastir á Vörinni.