Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Vill stofna kálver í Helguvík
Föstudagur 2. desember 2016 kl. 12:25

Vill stofna kálver í Helguvík

- Stefán Karl býður Kjartani Má, bæjarstjóra, upp í dans

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson lýsti því yfir á Facebook-síðu sinni í gær að hann vilji stofna grænmetis-framleiðslufyrirtæki í byggingum Norðuráls í Helguvík sem fyrirhugað var að myndu hýsa álver. Hugmynd Stefáns fékk glimrandi góðar móttökur og hafa hátt í tvö þúsund líkað við færsluna sem hefur verið deilt 77 sinnum. Í samtali við Víkurfréttir segir Stefán að honum sé fúlasta alvara með hugmyndinni sem á sér margra ára aðdraganda. Söngkonan Björk viðraði svipaðar hugmyndir í þættinum Návígi árið 2010.

„Mengandi stóriðja er ekki rétta leiðin til að tryggja atvinnu fyrir fólk hér á landi, heldur á að rækta grænmeti til útflutnings. Suðurnesin eru besti staðurinn til þess með tengingu til bæði Bandaríkjanna og Evópu,“ segir Stefán. Hugmyndin er enn á frumstigi en Stefán segir ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Public deli
Public deli

Hugmyndir Stefáns fela ekki aðeins í sér að rækta grænmeti í Helguvík heldur einnig að starfrækja þar stóran grænmetismarkað fyrir verslanir í Bandaríkjunum og Evrópu. „Íslenskar verslanir versla sitt grænmeti og ávexti á svona mörkuðum í útlöndum,“ segir Stefán og bendir á að í Boston og á Spáni og Hollandi séu þekktir grænmetismarkaðir. „Fulltrúar íslenskra innflytjenda fara í þessa markaði, sem líkjast fiskmörkuðum í eðli sínu. Svo er þessu flogið heim á 300 krónur kílóið. „Hver vegna ekki að hafa svona markað í Reykjanesbæ sem gæti þjónað Evrópu með það grænmeti sem þau kaupa frá Bandaríkjunum og öfugt?“ Stefán nefnir að rafmagn og vatn hér á landi sé ódýrt miðað við í nágrannalöndunum og því sé kjörið að starfrækja slíkan markað.

Hugmynd Stefáns nokkuð á veg komin og á hann í samstarfi við KPMG varðandi fjármálin og við bandaríska fyrirtækið American Hydroponics sem er stærsta fyrirtækið í heiminum í framleiðslu á vatnsræktunarkerfum. Undanfarið hafa þau pælt mikið í staðsetningu fyrirtækisins til framtíðar. „Þegar ég sá fréttina í gær um að ekkert yrði af álveri í Helguvík, hugsaði ég með mér: Af hverju ekki að framleiða grænmetið þarna?“ Lítill hópur hefur myndast í kringum hugmyndiana og að sögn Stefáns eru þau að draga til sín aðila héðan og þaðan.

Eitt kísilver er þegar risið í Helguvík og annað á teikniborðinu en Stefán Karl óttast ekki mengun þaðan, þvert á móti komi hún að góðum notum. „Í fyrsta lagi er grænmetisræktunin okkar eins og lofthreinsun á svæðinu. Mengunin á eftir að nýtast okkur vel. Grænmetisfyrirtæki dæla tilbúnum koltvísýringi inn í góðurhúsin til að auka á vöxt grænblöðunganna svo koltvísýringurinn mun nýtast okkur.“

Stefán segir hefðbundnar aðferðir í grænmetisræktun, með appelsínugulum ljósum, vera barn síns tíma. Hugmyndir hans byggjast á því að nota engin eiturefni eða sýru. „Við notum LED lýsingu sem notar 70 prósent minni raforku en í hefðbundinni gróðurhúsaræktun. Það þarf því engar virkjanir til að útvega okkur rafmagn.“ Þá er ætlunin að nota 70 prósent minna af vatni en í hefðbundinni ræktun.

Grænmetisræktunin gæti skapað 150 til 200 störf. Stefán segir hugmyndina fullkomlega raunhæfa en möguleika sem fólk skoðar síður. „Það er búið að kenna fólki að það græði ekkert nema það sé með skítuga putta og svo verður að koma mengun upp úr strompnum. Peningalyktin í þessu verkefni verður lyktin af hreina loftinu.“

Stefán Karl hefur ekki enn borið hugmyndina undir bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ en hann og Kjartan Már Kjartansson þekkjast vel síðan þeir unnu saman við gerð þáttanna um Latabæ. „Það verða því hæg heimatökin að ræða við Kjartan um það hvort starfsemin verði í þessu húsi í Reykjanesbæ eða öðru. Ég er að bjóða bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ upp í dans og vonandi koma þau og dansa. Kjartan er mikill dansari og ég veit að hann hefur lengi langað að dansa með mér. Það verður engin fiðla í þessu.“

[email protected]