Vill siðareglur fyrir bæjarfulltrúa
„Kjörnir bæjarfulltrúar og stjórnendur mega ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið óbeinna persónulegra hagsbóta af því. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða að hjálpa öðrum að gera það.“
Þannig hljómar málsgrein í tillögum að siðareglum sem Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, mun leggja fram á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á morgun. Siðreglurnar eru ætlaðar kjörnum bæjarfulltrúum og stjórnendum hjá Reykjanesbæ. Þær eru í fjórtán liðum og er markmið þeirra „að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir bæjarfulltrúar og stjórnendur sýni af sér við störf sín fyrir hönd Reykjanesbæjar og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra,“ eins og segir í tillögunni.
Í tillögunni er komið inn á ábyrgð bæjarfulltrúa og skyldur, misbeitingu valds, gjafir og fríðindi, hagsmunaárekstra, ábyrgð í fjármálum, stöðuveitingar og fleira.