Mánudagur 8. febrúar 2016 kl. 11:44
Vill sérstakt ákvæði um eltihrella
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, telur að setja þurfi sérstakt ákvæði um umsáturseinelti, eða „stalking“ eins og það er kallað á ensku. Frá þessu er sagt á vef
RÚV. Þessi skoðun hans kemur fram í umsögn um frumvarp innanríkisráðherra þar sem sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi verður lögfest í hegningarlögum. Í frumvarpinu segir að ekki sé talin þörf á að setja sérstakt ákvæði um eltihrella en því er lögreglustjórinn á Suðurnesjum ekki sammála.
Í umsögn Lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að hann telji mikilvægt að í slíku ákvæði um eltihrella komi fram með skýrum hætti að réttur þess sem fyrir umsáturseinelti verði sé talinn ríkari en réttur þess sem því beitir. Þannig þurfi að koma skýrt fram að friðhelgi þess sem telur sig verða fyrir áreiti sé tryggð. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur það vera grundvallarmannréttindi einstaklings að þurfa ekki að sæta áreitni frá öðrum einstaklingi og því skuli vera heimilt að skerða réttindi þess sem áreitinu beitir í þeim tilgangi að tryggja friðhelgi þess sem fyrir því verður. Því telur hann brýnt að sérstakt ákvæði um umsáturseinelti verði bætt sérstaklega við almenn hegningarlög. Að mati hans ganga úrræði laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 ekki nógu langt í þessum efnum.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum gerir einnig athugasemdir við orðalag í kafla frumvarpsins um umsáturseinelti þar sem segir að nálgunarbann geti verið ein tegund viðurlaga önnur en refsing. Í umsögn lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að nálgunarbann eigi ekki að vera talið til viðurlaga, frekar ætti að flokka úrræðið nálgunarbann sem eitt af þeim úrræðum sem til boða standa til að tryggja öryggi þolanda ofbeldis eða umsaturseineltis og að fyrst og fremst sé um öryggisúrræði að ræða.
Þá leggur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum áherslu á það í umsögn sinni að Alþingi beiti sér og leggi aukna áherslu á að aukið verði við úrræði til handa þeim sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi, til dæmis fyrir brotaþola, börn þeirra og aðra þá sem eru brotaþola nákomnir. Í umsögninni segir að að sama skapi telji lögreglustjórinn afar brýnt að lögð verði áhersla á að gerendum verði veitt úrræði við hæfi, til dæmis að þeim standi til boða sálfræðiaðstoð sem sniðin er að hverjum og einum, meðferðarúrræði til að mynda vegna vímu- og áfengisfíknar.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telur að til að ná böndum yfir heimilisofbeldi í samfélaginu sé afar brýnt að öllum þeim stofnunum sem aðkomu hafa að málaflokknum verði gert kleift að vinna saman og hafi heimildir til miðlunar upplýsinga og að þær verði skýrar í lögum.