Vill ríkisstjórn sem sammælist um mikilvæg mál
„Ég tel að staðan í skoðanakönnunum hafi verið skilaboð til flokksins um að ríkisstjórnarsamstarfið við VG hugnaðist flokksmönnum og stuðningsfólki ekki lengur, ég tel að þjóðin virði það við okkur að höggva á þennan hnút og boða til kosninga,“ segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í suðurkjördæmi. Hann mun gefa kost á sér í komandi kosningum.
Komu tíðindin á sunnudag þér á óvart?
„Ég get ekki sagt það. Ályktun frá Landsfundi VG um stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og óvarlegar yfirlýsingar nýkjörins formanns VG um samstarfið voru vendipunktur. Þegar stjórnarsamstarfið var endurnýjað eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur var sameinast um mikilvæg mál eins og efnahagsmál, orkumál og útlendingamál. Það kom síðan í ljós að VG ætlaði sér ekki að standa við þetta samkomulag. Þegar sú staða var komin upp var ekki til neins að halda samstarfinu áfram. Það var heldur ekki rétt gagnvart þjóðinni. Þetta eru mikilvægir málaflokkar sem verða að fá framgang og þjóðin beinlínis kallað eftir eins og í útlendingamálum. Við höfum náð tökum á málaflokknum og ný lög um útlendinga sem við samþykktum í vor og hafa skilað miklum árangri. Umsóknum hælisleitenda hefur fækkað um 57% milli ára og meira en 1000 manns hefur verið brottvísað. Það má hins vegar ekki slaka á í þessu vegna þess að málaflokkurinn er síbreytilegur og flóttamannastraumurinn til Evrópu á bara eftir að aukast. Það þarf að koma upp lokuðum búsetuúræðum, eins og hjá öðrum þjóðum, þannig að hægt verði að sannreyna bakgrunn þeirra sem hingað koma áður en þeir fá efnismeðferð umsóknar. Að sama skapi eiga þeir sem hafa fengið brottvísun að búa í sérstökum úrræðum áður en til brottvísunar kemur. Dómsmálaráðherra var með tilbúin frumvörp um þetta en formaður VG lýsti því yfir að það yrðu ekki gerðar frekari breytingar í útlendingamálum.
Auk þess voru það orkumálin sem VG reyndi að tefja fyrir. Í grunninn var þetta þannig að VG, með nýjum formanni, voru ekki tilbúnir að standa við samkomulag um verkefni ríkisstjórnarinnar sem þeir höfðu samþykkt nokkrum mánuðum áður. Þessu samstarfi var því sjálfhætt og ég tel að formaður flokksins hafi tekið rétta ákvörðun með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.“
Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið að mælast með lítið fylgi að undanförnu, hefurðu áhyggjur af því?
„Ég tel að staðan í skoðanakönnunum hafi verið skilaboð til flokksins um að ríkisstjórnarsamstarfið við VG hugnaðist flokksmönnum og stuðningsfólki ekki lengur. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart, enda flokkarnir mjög ólíkir í grunninn. Í samsteypustjórn þriggja flokka þarf ávallt að gera málamiðlanir og það höfum við gert sbr. samkomulagið þegar Katrín lét af störfum. Það samkomulag var síðan ekki virt af VG eins og áður segir.
Mörgu hefur verið áorkað á kjörtímabilinu en það kom í ljós að það var ekki lengur grundvöllur fyrir því að ná árangri í mikilvægum málum.
Ég tel að þjóðin virði það við okkur að höggva á þennan hnút og boða til kosninga. Þeir sem hafa sagt í könnunum að þeir væru ekki að styðja okkur lengur, ég hef fulla trú á því að þeir komi til baka og vonandi fleiri,“ segir Birgir.
Ætlarðu að halda áfram?
„Já, ég hef hug á því að gefa kost á mér í komandi kosningum til Alþingis. Ég hef fengið góðan stuðning í kjördæminu og hvatningu. Þau málefni sem ég hef talað fyrir hafa fengið mikinn hljómgrunn, má þar t.d. nefna útlendingamálin. Þetta er eitt af stóru málunum í næstu kosningum. Ég hef leitast við að sérhæfa mig í þessum málaflokki og hef m.a. setið sl. 3 ár flóttamannanefnd Evrópuráðsins. Ég vil leggja mitt að mörkum við að móta hér stefnu til framtíðar í þessum stóra málaflokki, sem tekur tillits til fámennis þjóðarinnar og stendur vörð um okkar velferðarkerfi, sem ásókn er í.“
Hvernig viltu sjá næstu ríkisstjórn myndaða?
„Ríkisstjórn sem sammælist um mikilvæg mál; stöðugleika í efnahagsmálum, framfarir, öflugt atvinnustig, endurbætur í menntamálum, örugg landamæri, standa vörð um velferðarkerfið og innlenda matvælaframleiðslu, sem er þjóðaröryggismál á óvissutímum í Evrópu. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn fái gott umboð í kosningunum til að taka þátt í ríkisstjórn sem sammælist um þessi mikilvægu verkefni og fleiri,“ sagði Birgir.