Vill reisa risahótel við Keflavíkurhöfn
Leitar að áhugasömum fjárfestum.
Til skoðunar er að reisa 98 herbergja hótel við Víkurbraut í Reykjanesbæ sem kæmi í stað fyrirhugaðs fjölbýlishúss við sjóinn. Til samanburðar eru 77 herbergi á Hótel Keflavík, stærsta gististað Reykjanesbæjar. Hótelið yrði því mjög stórt miðað við staðsetningu. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Grunnur hússins að Víkurbraut 17 hefur staðið óhreyfður síðan í efnahagshruninu. Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að Áskell Agnarsson, framkvæmdastjóri Húsagerðarinnar hf., hafi ásamt arkitektum hússins gert drög að breyttri hönnun þess og leitar nú að áhugasömum fjárfestum. Hugmyndin gangi út á að bæta einni hæð ofan á húsið þannig að það yrði átta hæðir, auk kjallara og bílakjallara þar fyrir neðan, sem brúi hæðarmuninn niður á hafnarsvæðið, alls 10 hæðir. Yrði kjallarinn notaður fyrir eldhús og veitinga- og þjónusturými.
Í viðtalinu segist Áskell ánægður með staðsetninguna. Á Víkurbraut og í næstu götu séu háreist fjölbýlishús með stórkostlegu útsýni yfir Reykjanesið og vestur á Snæfellsnes. Þetta séu með vandaðri fjölbýlishúsum sem byggð hafi verið í Reykjanesbæ. Vegna lágs fasteignaverðs sé ekki markaður fyrir slíkt húsnæði á svæðinu núna.
Sjá nánar hér.