Vill leggja áherslu á að verja verkefni tengd börnum
– við gerð fjárhagsáætlunar í Vogum
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur veitt Sveitarfélaginu Vogum jákvætt svar við ósk um frest til að leggja fram og afgreiða fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.
Með vísan til sveitarstjórnarlaga samþykkti bæjarráð að sækja um frest um að leggja fram fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. desember 2020 og að lokinni umfjöllun bæjarstjórnar geti afgreiðsla fjárhagsáætlunar farið fram eigi síðar en 31. desember 2020.
Jóngeir Hjörvar Hlinason, bæjarfulltrúi L-listans, óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað um fjárhagsáætlunina:
„Ljóst er að sveitarfélaginu er mikill vandi á höndum við gerð fjárhagsáætlunar 2021 til 2024, ýmsir þættir eru óljósir og því er rétt að fresta framlagningu draga að fjárhagsáætlun. Spá um tekjur og gjöld ættu skýrast eftir því sem tíminn líður nær áramótum. Þar er verið að ræða um samdrátt í útsvarstekjum og skerðingu greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga mun fyrirsjáanlega dragast saman á árinu 2021. Það er fyrirséð að kostnaður vegna lögbundinna verkefna sveitarfélagsins munu aukast.
Það lítur því frekar illa út með rekstur sveitarfélagsins 2021 og við þurfum öll að taka höndum saman ef ekki á mjög illa að fara.
Ég tel að við gerð fjárhagsáætlunarinnar skuli leggja áherslu á að verja verkefni tengd börnum ásamt því að tekið verði tillit til tekjulágra og eignalítilla einstaklinga sem kostur er.“