Vill hótel í Krísuvík
Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði vill að stjórnvöld kanni það hvort enn sé vilji hjá Alþjóðabankanum og Rockefellersjóðnum til að leggja fram fé til byggingar hótels í Krísuvík.Sigurður T. Sigurðsson, formaður félagsins, segir að það hafi verið mikil mistök hjá stjórnvöldum að stinga skýrslu sem Checci and Company skilaði til Sameinuðu þjóðanna árið 1975 um þetta mál ofan í skúffu. Þar var m.a. bent á að Krísuvík væri hægt að sameina á einn stað aðstöðu fyrir veiði í á, vötnum og sjó, vetrarferðamennsku, ráðstefnu- og fundaraðstöðu og jarðhitanýtingu til heilsuræktar og orkuöflunar. Í skýrslunni var einnig lagt til að á staðnum yrði reist stórt þak úr trefjagleri sem hitað yrði upp með jarðvarma þannig að sumarhiti ríkti þar innandyra óháð árstíðum.
Formaður Hlífar segist hafa reynt að halda þessu máli vakandi allan þennan tíma með því að minna hvern samgönguráðherrann á fætur öðrum á mikilvægi þessa máls en án árangurs. Hann segir að það sé óskiljanlegt í ljósi þess að Alþjóðabankinn og Rokcefellersjóðurinn hefðu á sínum tíma verið tilbúnir að leggja fram 70% af stofnkostnaði, óafturkræft. Sem dæmi um stórhug þeirra hefðu þeir talið að slíkt hótel yrði nokkurs konar ,,vörumerki fyrir Ísland."
Erindi Hlífar var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar á dögunum þar sem því var vísað til ferðamálanefndar til kynningar. Í bókun ráðsins er tekið undir umsögn Skipulags- og umferðarnefndar þar sem fram kemur að ótímabært sé að leggja í frekari skipulagsvinnu vegna þessa fyrr en raunveruleg viðskiptahugmynd liggur fyrir. Þar er hins vegar bent á að í tillögu að aðalskipulagi Krísuvíkur sé gert ráð fyrir að hægt sé að koma fyrir starfsemi tengdri ferðaþjónustu ef það sé talinn fýsilegur kostur.
Fréttablaðið/Vísir.is
Formaður Hlífar segist hafa reynt að halda þessu máli vakandi allan þennan tíma með því að minna hvern samgönguráðherrann á fætur öðrum á mikilvægi þessa máls en án árangurs. Hann segir að það sé óskiljanlegt í ljósi þess að Alþjóðabankinn og Rokcefellersjóðurinn hefðu á sínum tíma verið tilbúnir að leggja fram 70% af stofnkostnaði, óafturkræft. Sem dæmi um stórhug þeirra hefðu þeir talið að slíkt hótel yrði nokkurs konar ,,vörumerki fyrir Ísland."
Erindi Hlífar var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar á dögunum þar sem því var vísað til ferðamálanefndar til kynningar. Í bókun ráðsins er tekið undir umsögn Skipulags- og umferðarnefndar þar sem fram kemur að ótímabært sé að leggja í frekari skipulagsvinnu vegna þessa fyrr en raunveruleg viðskiptahugmynd liggur fyrir. Þar er hins vegar bent á að í tillögu að aðalskipulagi Krísuvíkur sé gert ráð fyrir að hægt sé að koma fyrir starfsemi tengdri ferðaþjónustu ef það sé talinn fýsilegur kostur.
Fréttablaðið/Vísir.is