Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vill ekki að drengurinn missi tengsl við móður sína
Ragnar og Adam stuttu eftir að þeir hittust á ný í Slóvakíu.
Þriðjudagur 3. nóvember 2015 kl. 10:27

Vill ekki að drengurinn missi tengsl við móður sína

- Bað lögregluna í Slóvakíu afsökunar

„Fyrsta sólarhringinn var ég eftirlýstur af lögreglu í Slóvakíu og af Interpol,“ segir Ragnar Hafsteinsson í viðtali við Víkurfréttir. Sunnudaginn 25. október síðastliðinn nam Ragnar sex ára gamlan son sinn á brott frá Slóvakíu, þar sem drengurinn var í heimsókn hjá móður sinni. Feðgarnir búa í Noregi en móðir drengsins býr í Slóvakíu. Ragnar er með forræði yfir drengnum og samkvæmt úrskurði hefur móðirin umgengnisrétt í einn mánuð yfir sumartímann og önnur hver jól og áramót. Drengurinn hafði farið til hennar í heimsókn og átti að dvelja í eina viku og koma til baka sunnudaginn 11. október. Daginn áður fékk Ragnar skilaboð um að drengurinn væri veikur og myndi ekki koma. Eftir það gat hann ekki náð sambandi við móðurina né fjölskyldu hennar. Ragnar vissi ekki hvar í Slóvakíu drengurinn væri og tilkynnti málið til lögregluyfirvalda í Noregi.

Eftir að hafa ráðfært sig við sérfræðinga í innan- og utanríkisráðuneytum Noregs og Íslands ákvað Ragnar að í stað þess að sækja málið fyrir dómstólum myndi hann fara til Slóvakíu og sækja drenginn. „Eftir að ég tók drenginn hringdi hún til lögreglunnar og tilkynnti að barninu hennar hefði verið rænt og auðvitað fór það mál í hæsta forgang hjá lögreglunni þar og ég var eftirlýstur. Ég sendi strax öll gögn þangað um að ég hafi forræðið og eftir það var ég ekki lengur eftirlýstur. Það var fjallað um málið í fjölmiðlum í Slóvakíu og ég sendi þeim líka öll gögn og í myndbandi sem var birt í fjölmiðlum þar bað ég lögregluna afsökunar á þessu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Líf feðganna er nú óðum að komast í eðlilegt horf eftir allt sem á hefur gengið undanfarnar vikur. Ragnar segir stöðuna fyrst og fremst erfiða fyrir son sinn og að það brot á umgengni þegar drengurinn kom ekki til baka til Noregs hafi valdið miklum skaða. „Ég veit satt að segja ekki hvernig umgengnin verður í framtíðinni. Það er þó ljóst að drengurinn fer ekki til Slóvakíu í bráð. Mér þykir það leitt því hann mun ekki aðeins missa af tengslum við móður sína, heldur líka við fjölskylduna hennar. Ég hef alla tíð lagt mig fram um að stykja tengsl hans við Slóvakíu enda er hann hálfur Slóvaki. Kannski getur móðirin komið og hitt hann hérna í Noregi. Þetta er mjög erfið staða því auðvitað vil ég ekki skera á samband drengsins við móður sína. En að sama skapi vil ég ekki hætta á að þetta gerist aftur.“ 

Að sögn Ragnars er málinu ekki lokið þó að drengurinn sé kominn til baka. „Ég vildi óska að ég gæti sagt að málinu væri lokið. Drengurinn er kominn í sitt umhverfi aftur og sem betur fer beið hann ekki skaða af þessu. Nú þarf að breyta úrskurði um umgengni til að tryggja að þetta gerist ekki aftur. Það mál fer sína leið í norska dómskerfinu og ætti ekki að taka langan tíma. Nú er komið farbann á drenginn svo ef hann yrði numinn á brott frá Noregi yrði það mál litið mjög alvarlegum augum.“

Ragnar hefur einnig gert ýmsar öryggisráðstafanir í daglegu lífi sem hann getur eðli málsins samkvæmt ekki tjáð sig um. Hann tók þá ákvörðun að sækja drenginn sjálfur til Slóvakíu eftir að hafa komist að því að drengurinn væri byrjaður í skóla í Slóvakíu og að búið væri að skrá hann til heimilis þar. Þá dvínuðu vonir um að móðirin myndi senda hann aftur til Noregs. Eftir að feðgarnir komu aftur til Noregs komst Ragnar svo að því að móðirin væri komin með forræði yfir drengnum í Slóvakíu. „Ég veit ekki hvernig hún gat fengið forræði þar því hún hefur ekki getað framvísað gildum gögnum. Forræðið sem hún fékk gildir þó ekki annars staðar en þar og ég veit í rauninni ekki hvort að er enn í gildi.“

Ragnar vill ítreka þakkir til allra sem veittu honum stuðning við að endurheimta son sinn aftur.