„Viljum verða besta þekkingarsetur í heimi“
Nýstofnað Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði ætlar sér stóra hluti í markaðssetningu og kynningarmálum. Stofnuninni er ætlað að verða miðstöð rannsóknastarfs og rannsakenda í náttúrufræðum og tengdum greinum á Suðurnesjum. Samstarf við menntastofnanir af ýmsum toga er fyrirhugað, bæði hérlendis og erlendis.
Stjórn Vaxtarsamnings Suðurnesja styrkti Þekkingarsetrið á dögunum þegar styrkjum til eflingar atvinnulífs og nýsköpunar á svæðinu var úthlutað. „Það sem að styrkurinn gerir okkur kleift er að setja kraft í markaðssetninguna. Hún skiptir okkur gífurlega miklu máli,“ segir Hanna María Kristjánsdóttir forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði í samtali við Víkurfréttir. Hanna María var ráðin til starfa síðastliðið haust en áður hafði hún starfað sem verkefnisstjóri hjá menntamálaráðuneytinu vegna verkefnis um eflingu menntunar á Suðurnesjum og sem kennslustjóri hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Setrið fékk 750.000 kr. styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja í samstarfi við Náttúrustofu Suðvesturlands og Rannsóknasetur HÍ, til markaðssetningar og þá sérstaklega með áherslu á erlenda markaðssetningu og tengslamyndun þegar kemur að rannsóknaraðstöðu sem boðið er upp á í húsnæðinu.
Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og Náttúrustofa Suðvesturlands, sem eru helstu stoðstofnanir Þekkingarsetursins, eru í samstarfsverkefnum með fjölda erlendra háskóla og rannsóknastofnana og því koma margir vísindamenn hingað til starfa og rannsókna. „Margir þeirra koma ár eftir ár og dvelja í mánuð eða meira,“ segir Hanna María en Þekkingarsetrið býður upp á gistiaðstöðu í húsakynnum sínum fyrir vísindamenn sem eru þar við rannsóknir.
Ýmsar sýningar í húsnæðinu njóta töluverðra vinsælda og koma margir grunnskólanemar á þær ár hvert, bæði Íslendingar og nemar erlendis frá. „Það væri gaman að tengja sýningarnar hér við námskrá grunnskóla, þannig að þær yrðu hluti af námi en ekki einungis hluti af vettvangsferð eða slíku. Þannig má vekja athygli á náttúrufræði,“ segir Hanna María.
Með átakinu er vonast til þess að koma Þekkingarsetrinu á framfæri erlendis eins og áður segir. Einnig er vonast til þess að koma á samstarfi við önnur þekkingarsetur hérlendis. Samstarf er gott á milli Þekkingarsetursins og menntastofnana á Suðurnesjum. Boðið er upp á sérstök námskeið í samstarfi við MSS sem hefjast innan skamms. Eins er samstarf við Fisktækniskólann gott að sögn Hönnu Maríu. „Það sem við höfum hérna er einstakt. Við höfum tæran og hreinan sjó sem flæðir beint inn í hús til okkar. Eins er nálægðin við náttúruna mikil.“
Helsta hlutverk Þekkingarsetursins eru rannsóknir í náttúrufræði. „Fyrst og fremst viljum við að Þekkingarsetrið verði virt meðal fræðimanna og verði miðstöð rannsókna og rannsakenda,“ segir Hanna. Í húsnæðinu hefur verið rannsóknarstarfsemi í u.þ.b. 20 ár. Náttúrustofa hóf starfsemi árið 2000 og árið 2006 fór Rannsóknarsetur Háskóla Íslands af stað. „Það er þegar búið að gera mikið. Við erum ekki að byrja á núlli. Það sem þarf kannski að gera er að samræma alla aðila betur og vinna vel með það sem við höfum í höndunum. Það er mjög mikill áhugi á því sem er í gangi hjá okkur og ég tel að alltof fáir viti hreinlega af því að hér hafi fjöldinn allur af háskólanemum verið að læra.“ Margir háskólanemendur nýta sér aðstöðu setursins og það er þjónusta sem Hanna vill auka enn frekar. Allir háskólanemar af Suðurnesjum geta nýtt sér aðstöðu í húsnæðinu hvenær sem er sólarhrings. „Margir geta illa lært heima hjá sér og bókasafnið er ekki alltaf opið, þannig að við ætlum að athuga hvort þetta sé þjónusta sem vantar.“
Starfið er háð styrkjum og því eru styrkir eins og frá Vaxtarsamningnum ómetanlegir. Án þeirra væri lítið annað hægt að gera en að halda starfseminni á floti að sögn Hönnu. Starfsmannafjöldi Þekkingarsetursins hefur tvöfaldast síðan í september vegna styrkja. Þannig var hægt að ráða þrjá líffræðinga til starfa. Það telur Hanna m.a. að hafi góð áhrif á menntunarstigið á svæðinu. „Við erum full af eldmóði og áhuga. Ég tel að starfsemin eigi eftir að blómstra. Við viljum auðvitað bara verða besta þekkingarsetur í heimi,“ segir Hanna og brosir.