Viljum ekki láta bílana keyra yfir okkur
Eldri emendur frá Framnesi í leikskólanum Vesturbergi heimsóttu bæjarstjórann sinn á dögunum og afhentu honum bréf þar sem óskað var eftir aðgerðum til þess að bæta umferðaröryggi þeirra.
Nemendurnir fara reglulega upp að Mánahesti til þess að leika sér og skoða breytingar sem eiga sér stað í náttúrunni. Börnin og kennararnir hafa verið í vandræðum þar sem bílarnir aka mjög hratt á Hringbrautinni við gatnamót Hringbrautar og Vesturbrautar en þar rétt hjá fara nemendurnir gjarnan yfir götuna.
Börnin ákváðu að leita til bæjarstjórans til þess að koma ábendingum sínum á framfæri og á fundi með honum afhentu þau honum greinargerð með óskum um úrbætur.
Greinargerðin var svohljóðandi:
Kæri bæjarstjóri, Vilt þú setja gangbraut á götuna við Mánahest af því að við viljum ekki láta bílana keyra yfir okkur. Elsku bæjarstjóri, vilt þú taka spýturuslið af Mánahesti, en ekki henda því á götuna af því að þá geta sprungið dekk.
Börnin á Vesturbergi þurfa ekki að bíða lengi eftir úrbætum en þegar er hafin vinna við gerð gangbrautar við Hringbrautina. Íbúar eru jafnframt hvattir til þess að taka tillit til ungra vegfarenda sem og annara og stilla ökuhraða sínum í hóf.
Börnin á Vesturbergi sem heimsóttu bæjarstjórann fengu öll gefins blýant eftir heimsóknina.