Vilji fyrir göngu- og hjólreiðastíg
– frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Enginn göngu- og hjólreiðastígur liggur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar, alþjóðaflugvelli þjóðarinnar. Þetta var rætt á íbúafundum með bæjarstjóra Reykjanesbæjar í síðustu viku.
„Ferðamenn sjálfir hafa bent á þá staðreynd að þeir sem vilja hjóla eða ganga að og frá Flugstöðinni eiga þess nauðugan kost einan að fara út á akbrautirnar.
Það hlýtur að vera forgangsmál fyrir ferðaþjónustuna að bjóða tengingu frá Leifsstöð a.m.k.við göngustígakerfi Reykjanesbæjar, sem er einfaldast og ódýrast,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ.
Hann sagði að málið hafi verið rætt við Vegagerðina og innanríkisráðherra og allir tekið vel í að hratt verði brugðist við. Áætlað er að kostnaður við slíkan stíg sé um 50 milljónir króna.