Vilja yfirtaka björgun Guðrúnar
Forráðamenn norska björgunarfélagsins Seløy Undervannsservice hafa krafist þess að gengið verið til samninga um að félagið yfirtaki björgunaraðgerðir fjölveiðiskipsins Guðrúnar Gísladóttur, að því er fram kemur á fréttavef norska ríkisútvarpsins. Fyrirtækið telur að það sé eini möguleikinn til að fá greitt fyrir björgunaraðgerðirnar. Kostnaður björgunarfélagsins við björgunaraðgerðirnar nemur rúmlega 50 milljónum íslenskra króna. Einar Nordens, hjá Seløy Undervannsservice, segir við norska ríkisútvarpið að Íshús Njarðvíkur, sem á skipið á hafsbotni við Norður-Noreg, skuldi björgunarfélaginu 5 milljónir norskra króna. Hann segir að eini möguleikinn til að fá eitthvað upp í vinnulaunin væri að taka yfir björgunaraðgerðirnar. Norska björgunarfélagið hefur gefið Íslendingunum frest til klukkan þrjú í dag til að ganga til samninga um að fyrirtækið yfirtaki björgunaraðgerðirnar, eða þá að skuldin við fyrirtækið verði greidd. Norska fyrirtækið segir að ekkert verði unnið við björgunaraðgerðir fyrr en peningamálin eru komin á hreint, segir á vef Morgunblaðsins, mbl.is.