Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja vera fyrsti viðkomustaður fyrirtækja í leit að starfsfólki
Íris Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum
Sunnudagur 22. nóvember 2015 kl. 06:00

Vilja vera fyrsti viðkomustaður fyrirtækja í leit að starfsfólki

200 færri án atvinnu á Suðurnesjum nú en fyrir ári.

Þrátt fyrir mikinn uppgang í atvinnulífi á Suðurnesjum og fréttir þess efnis að erfitt sé að manna fyrirtæki eru nú 365 manns á atvinnuleysisskrá á svæðinu. Meirihluti fólks án atvinnu á Suðurnesjum er fólk á aldrinum 21 til 30 ára, eða um 30 prósent. Þá eru konur um 55 prósent fólks án atvinnu. 
 
Íris Guðmundsdóttir, forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, segir ýmsar ástæður geta legið að baki því að fólk finni ekki vinnu hæfi. „Við höfum fundið fyrir því að ungar konur eiga erfiðara en aðrir hópar með að fá vinnu. Oft eiga konur á þessum aldri ung börn. Hér á Suðurnesjum er mikið um vaktavinnu, til dæmis tólf tíma vaktir á Keflavíkurflugvelli sem byrja um klukkan 5:30. Það er hópur fólks sem vill vinna en er ekki í aðstöðu til að taka þannig störfum og þá eru kannski ekki mörg önnur störf í boði. Leikskólar eru opnir á hefðbundnum skrifstofutímum og það hafa ekki allar fjölskyldur bakland til að brúa það bil sem myndast þegar fólk vinnur vaktavinnu.“ Íris kveðst vona að í þeim uppgangi sem nú á sér stað muni fyrirtæki auka sveigjanleika í vinnutíma til að koma til móts við þann hóp sem ekki getur unnið langar vaktir. „Við viljum að fólk héðan af svæðinu fari í þessi störf.“
 
Krafa um hreint sakarvottorð
Mörg störf á Suðurnesjum eru tengd flugvellinum og segir Íris það hamla þeim hópi fólks sem ekki er með hreint sakarvottorð því ekki sé hægt að fá vinnu þar nema sýna fram á slíkt. Mikil hreyfing er á atvinnuleysisskránni á Suðurnesjum og hefur um 25 prósent atvinnuleitenda nýtt tvo mánuði eða minna af bótarétti sínum. Stærsti hópurinn stoppar ekki lengi við en þó er alltaf hópur sem kemur aftur og aftur inn á skrána.
 
Meðal atvinnuleitenda á Suðurnesjum eru um 32 prósent erlendir ríkisborgarar. Til samanburðar er hlutfallið um 20 prósent á landinu öllu. Af þessum erlendu ríkisborgurum eru 77 prósent með pólskan ríkisborgararétt. Á landsvísu er hlutfallið 59 prósent. Að sögn Írisar eru margir í hópnum sem hvorki tala íslensku né ensku og því geti verið snúið að finna vinnu við hæfi fyrir þá einstaklinga.
 
200 færri á atvinnuleysisskrá nú en fyrir ári
Þegar atvinnuleysi á Suðurnesjum var hvað mest árið 2010 var það 13,1 prósent en var þá 8,1 prósent á landsvísu. Nú er atvinnuleysi á svæðinu 3,1 prósent, miðað við 2,6 prósent á landsvísu. „Við erum að nálgast landsmeðaltal sem er mjög ánægjulegt. Í langan tíma voru Suðurnesin 1,5 prósent yfir landsmeðaltali en eru núna aðeins hálfu prósenti yfir því.“ Íris segir horfur í atvinnumálum hafa batnað mikið á undanförnum tólf mánuðum því að í október í fyrra var atvinnuleysi á Suðurnesjum 4,7 prósent og atvinnuleysisskráin taldi 562 manns. Því er ljóst að fækkunin á einu ári er um tvö hundruð manns. 
 
„Það þarf að byrja einhvers staðar“
Í umræðunni um fjölgun starfa á Suðurnesjum heyrast stundum þær raddir að erfitt sé að finna fólk til að ráða í störf. Sum fyrirtækjanna íhuga að flytja inn fólk frá útlöndum og önnur að leita eftir fólki af höfuðborgarsvæðinu. Íris segir koma fyrir að fyrirtæki sem leiti út fyrir svæðið eftir starfsfólki hafi ekki leitað til Vinnumálastofnunar eftir fólki. „Það er alltaf leiðinlegt þegar við heyrum af því. Við viljum vera fyrsta stopp atvinnurekenda þegar ráða þarf fólk því við bæði getum og viljum hjálpa.“ Vinnumálastofnun hefur eflt vinnumiðlun og fer fulltrúi stofnunarinnar í heimsókn til fyrirtækja í hverri viku til að kynna þau vinnumarkaðsúrræði sem í boði eru hjá Vinnumálastofnun og til að kanna hvort fyrirtækin hafi möguleika á að ráða til sín fleira fólk. „Við bjóðum fyrirtækjum meðal annars upp á úrræði sem felur í sér að ráðinn er starfsmaður af atvinnuleysisskrá með styrk frá Vinnumálastofnun í þrjá til sex mánuði. Um sjötíu prósent fólks af atvinnuleysisskrá sem hefur nýtt sér þetta úrræði hefur ekki komið aftur á skrá. Þá er fólk annað hvort ráðið áfram hjá fyrirtækinu þegar úrræðinu er lokið eða það finnur annað starf. Þetta er virkilega gott tækifæri, sérstaklega fyrir unga atvinnuleitendur sem ekki eru með mikla starfsreynslu. Reynslan fer á ferilskrána og fólk getur fengið meðmæli fyrir næsta starf. Við hvetjum fólk alltaf til að taka þessu úrræði þó svo að það fái kannski ekki draumastarfið strax. Það þarf alltaf að byrja einhvers staðar.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024