Vilja útboð um rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi ályktar að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðrún Hafsteinsdóttir.
Með því að bjóða út rekstur annarrar heilsugæslustöðvarinnar er tryggt að heimilislæknum standi einnig til boða að reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa kost á. Leiða má líkur að því að auknir valmöguleikar hvað varðar rekstrarform hafi í för með sér að auðveldara verði að fá heimilislækna til starfa á Suðurnesjum. Sem kunngut er hefur reynst erfitt að fá sérfræðinga, hvort sem er á sviði læknisfræðinnar eða annarra sérfræðigreina, til starfa á landsbyggðinni og því mikilvægt að gera starfsumhverfi þeirra eins fjölbreytt og aðlaðandi og unnt er, segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
„Nú eru tæplega 30.000 íbúar á þjónustusvæði HSS og um er að ræða fjórða stærsta sveitarfélag landsins. Almennt er miðað við að að baki hverri heilsugæslustöð séu um 12.000 íbúar. Þannig ættu í raun að vera þrjár heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum. Nú er þar ein bráðamóttaka og ein heilsugæslustöð á Suðurnesjunum öllum. Það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og gríðarlegt álag. Það er óviðunandi staða og það er mat okkar flutningsmanna að mikilvægt sé að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái aukið rými til að sinna sinni lögbundnu þjónustu Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra,” segir Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum hafi verið góð og njóta þær almennt meira trausts en aðrar, sbr. þjónustukönnun Maskínu fyrir allar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins frá árinu 2019. Heilsugæslustöðvarnar eru nítján talsins. Þar kom fram að allar fjórar einkareknu heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu voru mjög ofarlega á lista yfir þær heilsugæslustöðvar sem nutu mests trausts, eða í efstu sjö sætunum. Í sömu könnun var spurt um ánægju sjúklinga með þá þjónustu sem heilsugæslustöðvarnar buðu upp á og var niðurstaðan afgerandi. Einkareknu heilsugæslustöðvarnar röðuðu sér í fjögur efstu sætin.