Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja tryggja áframhaldandi rekstur Bjargarinnar
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ leita nú leiða til Björgin - geðræktarmiðstöð Suðurnesja geti starfað áfram.
Þriðjudagur 12. janúar 2016 kl. 06:00

Vilja tryggja áframhaldandi rekstur Bjargarinnar

- Ekki ert ráð fyrir fjármagni frá Reykjanesbæ eftir mitt næsta ár

Ekki er gert ráð fyrir fjármagni til rekstrar Bjargarinnar - geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja eftir mitt næsta ár, samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Björgin er rekin af Reykjanesbæ í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðuresjum. Mikill vilji er þó meðal bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar til að halda starfseminni áfram. Velferðarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum 16. desember síðastliðinn að Björgin verði skilgreind sem hæfingar- og endurhæfingarstöð samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og verði þar með lögbundin þjónusta á geðheilbrigðissviði. Ráðið lagði jafnframt áherslu á að leita eftir stuðningi við rekstur starfseminnar hjá ríki og félagasamtökum. 
 
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þriðjudaginn 5. janúar síðastliðinn samþykktu allir bæjarfulltrúar að vísa málinu til bæjarráðs. Í umræðum um málið kom fram vilji til að finna leiðir og halda starfseminni áfram. Í máli Kristins Þórs Jakobssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, kom fram að illt væri til þess að vita að þessi staða væri staðreynd. „Ótrúlegur fjöldi fólks hefur haft samband þegar það frétti að loka ætti Björginni. Aðstandendur hafa áhyggur af fólki sem sækir þangað. Við verðum að finna einhver ráð til að halda henni opinni. Það eru sex mánuðir þangað til henni verður lokað, þangað til verðum við að finna ráð til að halda henni opinni,“ sagði hann í umræðum um málið.
 
Hafdís Guðmundsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar, kveðst vera vongóð um að það takist að tryggja framtíð Bjargarinnar. „Ég ætla að trúa því að Björginni verði ekki lokað og heyri ekki annað en að það sé mikill stuðningur við áframhaldandi starfsemi. Við höfum skilað góðum árangri og daglega sækja til okkar á milli 30 og 40 manns. Það er vilji en það skortir fjármagn,“ segir hún. 
 
Björgin á í samstarfi við geðteymi á HSS, geðsvið LSH, Samvinnu, félagsþjónustur sveitarfélaganna og fleiri. Hafdís segir að frá opnun árið 2005 hafi fjöldi þeirra sem sæki þjónustuna aukist jafnt og þétt. „Á fyrsta árinu sóttu 60 einstaklingar Björgina en í lok árs 2014 höfðu 619 manns sótt þar einhverja þjónustu. Á árinu 2014 bættust við 99 einstaklingar og má þar telja fólk sem hefur verið í endurhæfingu, fengið ráðgjöf, viðtöl, tekið þátt í námskeiðum, hópastarfi eða sótt athvarfið á eigin forsendum.“
 
Björgin er endurhæfingarúrræði, athvarf og þar er fólki veitt eftirfylgd eftir þörfum. Endurhæfing er einstaklingsmiðuð, haldið er utan um endurhæfingaráætlanir, fylgst með mætingu og árangur metinn. 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024