Vilja styðja við frekari atvinnusköpun á Suðurnesjum
„Á Suðurnesjunum ríkir mikill kraftur, dugnaður og sköpunargleði,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, formaður Eignarhaldsfélags Suðurnesja. Félagið hefur stutt vel við frumkvöðlafyrirtæki og atvinnulíf á Suðurnesjum.
„Eignahaldsfélag Suðurnesja var stofnað í þeim megintilgangi að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Við horfum mikið til þess í mati á umsóknum um aðkomu Eignahaldsfélagsins að verkefnið skapi störf á Suðurnesjum. Fyrirtækið sé með aðsetur hér og ætli sér að byggja áfram upp starfsemina hér á Suðurnesjum,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, stjórnarformaður. Eignahaldsfélag Suðurnesja hélt í vikunni sinn hundraðasta stjórnarfund. Af því tilefni var opnað rafrænt umsóknarkerfi og komið á þéttara samstarfi við Hekluna, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja.
Mikilvægur stuðningur við Suðurnesjafyrirtæki
Eignahaldsfélagið er að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, Byggðastofnunar, sveitafélaganna á Suðurnesjum og Festu lífeyrissjóðs. Félagið hefur tekið þátt í uppbyggingu á mörgum verkefnum og fyrirtækjum hér á Suðurnesjum sem náð hafa góðum árangri. Dæmi um fyrirtæki sem félagið er aðili að í dag eru GeoSilica, Flugakademía Keilis, Matorka, Artic Sea Minerals, Taramar, Orf Líftækni og Garðskagaviti ferðaþjónusta. „Þessi félög komu öll til okkar á snemmstigum rekstrarins. Algengt er að fyrirtæki fái styrki til nýsköpunar og uppbyggingar og svo þegar kemur að því að komast á næsta stig þá er takmarkað aðgengi að fjárfestingarsjóðum og lánalínum. Á þessu stigi er sjóðsstreymi ennþá frekar lítið og áhættan mikil en fyrirtækið þarf fjármagn til að geta komist á næsta stig sem felur þá í sér ýmist kaup á búnaði til að auka afkastagetu, þróun og/eða breikkun á vörulínum, markaðssetningu, ráðningu á fleira starfsfólki og þess háttar. Þarna kemur Eignahaldsfélagið mjög sterkt inn. Við erum bæði að lána og kaupa hlutafé en síðustu misseri hafa hlutafjárkaupin verið mun eftirsóknarverðari. Það sem menn horfa mikið í þar er að við bjóðum uppá að fyrirtækin kaupi okkur út aftur á hagkvæmum mjög kjörum. Þannig geta fyrirtæki fengið innspýtinguna þegar vantar en svo eignast aftur sinn hluta eða selt hann öðrum með ágóða þegar fyrirtækið er komið í góðan rekstur,“ segir Gunnhildur.
Samstarf við Hekluna
Eignahaldsfélag Suðurnesja hefur formað náið samstarf við Hekluna, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja í ferli umsókna.
„Heklan er í eðli sínu með yfirsýn yfir alla nýsköpun og þjónustu við frumkvöðla á Suðurnesjunum og því vildum við þétta samstarf félaganna enn frekar. Við höfum nú komið upp rafrænu umsóknarferli um fjárfestingarstuðning frá Eignahaldsfélaginu inná heimasíðu Heklunnar auk þess sem ráðgjafar Heklunnar veita áhugasömum og umsækjendum stuðning við umsóknarferlið, segir Gunnhildur.“
Óskum eftir fleiri umsóknum
Gunnhildur segir að í árferði sem þessu sé Eignahaldsfélagið mikilvægur bakhjarl við atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og skal nýta það sem slíkt.
„Hér á Suðurnesjunum ríkir mikill kraftur, dugnaður og sköpunargleði. Við viljum sérstaklega minna á okkur núna fyrir einstaklinga og hópa sem hafa hug á að stofna fyrirtæki eða eru komin af stað og vilja auka umsvif sín.“
Hægt er að nálgast upplýsingar um kjör og kröfur félagsins inni á heimasíðu Heklunnar.
Eignarhaldsfélag Suðurnesja er aðili að frumkvöðlafyrirtækinu Orf Líftækni í Grindavík.
GeoSilica með Fidu Libdech í fararbroddi hefur notið stuðnings Eignarhaldsfélags Suðurnesja. Hér er Fida með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra eftir að hafa fengið afhent Hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnurekstri.