Vilja skipta um nafn á Sorpeyðingarstöð Suðurnesja
Lagt er til að nafni Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. verði breytt. Þetta er meðal tillagna sem framkvæmdastjóri félagsins lagði fyrir stjórnarfund í júní og að tillagan verði tekin fyrir á aðalfundi Sorpeyðinarstöðvarinnar í ágúst næstkomandi.
Lagt er til að nafnið Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sf. verði aflagt og í þess stað verði tekið upp nýtt nafn á félagið; Kalka sf. sorpeyðingarstöð (Kalka, incinerator authority). Með breyttu nafni verður ekki breyting á kennitölu félagsins.
Í greinargerð með tillögunni segir að í daglegu tali er félagið langoftast kallað Kalka, bæði af starfsfólki, viðskiptaaðilum og almenningi. Nafn félagsins er langt og óþjált, sér í lagi þegar um er að ræða samskipti við erlenda aðila. Einnig hefur þetta nokkuð oft valdið misskilningi hjá aðilum sem senda félaginu reikninga o.þ.h.
Stjórn félagsins telur nafnabreytingu tímabæra.