Vilja setja upp mastur til vindorkurannsókna
HS Orka hefur óskað eftir því við bæjaryfirvöld í Grindavík að setja upp 80 metra hátt mælimastur við Rauðamel vegna vindorkurannsókna.
Skipulagsnefnd Grindavíkur bendir á að mörkuð verði stefna í vindorkumálum í Grindavík í yfirstandandi vinnu við endurskoðun aðalskipulags Grindavíkurbæjar.
Skipulagsnefnd tekur jafnframt jákvætt í erindi HS Orku og að mælingar verði gerðar við Rauðamel en óskar eftir nákvæmari framkvæmdaleyfisgögnum. Einnig óskar nefndin eftir að fá að nýta gögn vegna mælinga við endurskoðun aðalskipulags bæjarins.