Vilja samstarf í skipulags- og byggingarmálum
Bæjarstjórn Garðs hefur tekið fyrir bókun frá bæjarráði Sandgerðisbæjar vegna samstarfs í skipulags- og byggingarmálum og vegna starfs byggingarfulltrúa.
Bæjarráð Sandgerðis leggur til að teknar verði upp viðræður um samstarf við Sveitarfélagið Garð og Sveitarfélagið Voga er varðar byggingar- og skipulagsmál til hagræðis fyrir sveitarfélögin. Til samanburðar má benda á að samstarf sveitarfélaganna á sviði félagsmála hefur tekist vel.
Lagt er til að bæjarstjórn Garðs samþykki að taka aftur upp viðræður sveitarfélaganna um byggingar- og skipulagsmál með það að markmiði að auka þjónustu á svæðinu um leið og leitað er leiða til að minnka kostnað sveitarfélaganna í málaflokknum. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs samþykkir þess vegna samhljóða að Brynja Kristjánsdóttir, Laufey Erlendsdóttir og Einar Jón Pálsson verði fulltrúar Garðs í nefndinni.