Vilja rúmlega þrefalda fiskeldi að Kalmanstjörn á Reykjanesi
Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögn um umhverfismatsskýrslu um stækkun fiskeldis Benchmark Genetics Iceland að Kalmanstjörn á Reykjanesi. Reykjanesbær gerir ekki athugasemd við umhverfismatsskýrsluna og telur að nægjanlega sé skýrt hvernig unnið verði að umhverfismati framkvæmdarinnar en framkvæmdin er byggingarleyfisskyld.
Benchmark Genetics Iceland hefur leyfi til framleiðslu á allt að 190 tonnum af laxi á ári í eldisstöðinni við Kalmanstjörn og hyggst auka framleiðsluna í 600 tonna hámarkslífmassa. Með framkvæmdinni getur fyrirtækið aukið hrognaframleiðslu í stöðinni. Áætlað er að auka þurfi vinnslu jarðsjávar á svæðinu um 700 l/s (ísalt vatn og jarðsjór) til að mæta framleiðsluaukningunni og grunnvatnsvinnsla vegna eldisins verði þá í heildina allt að 1.500 l/s meðalrennsli á ári. Áhrif aukinnar framleiðslu á laxi í eldinu við Kalmanstjörn og aukinnar vinnslu á grunnvatni þar eru metin óveruleg fyrir grunnvatn, jarðmyndanir og fornleifar. Áhrif á lífríki í fjörunni eru metin óveruleg til nokkuð neikvæð ef fráveitan verður áfram með núverandi fyrirkomulagi (kostur A) og áhrifin eru metin óveruleg ef fráveitan verður hreinsuð áður en eldisvatni er veitt í fjöruna (kostur B). Verði frárennsli hreinsað eru áhrif á fuglalíf metin óveruleg (kostur B) en óveruleg til nokkuð jákvæð verði fyrirkomulag fráveitunnar óbreytt frá því sem nú er (kostur A).