Fréttir

Vilja rífa togarann Orlik í Helguvík
Togarinn Orlik í Njarðvíkurhöfn. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 11. janúar 2018 kl. 08:00

Vilja rífa togarann Orlik í Helguvík

— Spurning hvenær alvarlegt óhapp verður

Hringrás hf. hefur óskað eftir því með bréfi til Reykjaneshafnar að fá aðstöðu á hafnarsvæðinu í Helguvík til niðurrifs á togaranum Orlik. Togarinn hefur legið bundinn við bryggju í Njarðvíkurhöfn frá árinu 2014. Stjórn Reykjaneshafnar hefur samþykkt niðurrifið með skilyrðum enda spurning um tíma hvenær alvarlegt óhapp verður af geymslu skipsins í Njarðvíkurhöfn.
 
Á fundi hafnarinnar um miðjan desember sl. var eftirfarandi bókun samþykkt:
 
„Togarinn Orlik kom til Njarðvíkurhafnar á haustdögum 2014. Á þeim tíma stóð til að rífa togarann þó ekki lægi fyrir hvernig staðið yrði að þeirri framkvæmd. Leitað hefur verið ýmissa leiða til þess verkefnis, bæði innanlands og í útlöndum, án þess að það hafi gengið eftir.
 
Ljóst er að töluverð vá er af togaranum í Njarðvíkurhöfn, tvisvar sinnum hefur hann næstum slitið landfestar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og einu sinni munaði litlu að hann sykki við hafnarkant. Að mati hafnaryfirvalda er það spurning um tíma hvenær alvarlegt óhapp verður af veru skipsins í Njarðvíkurhöfn og því forgangsmál að finna varanlega lausn á þeim vandamálum sem togaranum fylgir.
 
Ef lausnin er að draga togarann á landi á hafnarsvæði Helguvíkurhafnar til niðurrifs þá heimilar Stjórn Reykjaneshafnar slíka framkvæmd, ef önnur þar til bær stjórnvöld gefa heimild til þess. Heimildin er þó bundin því að Reykjaneshöfn verði ekki fyrir fjárhagsútlátum af framkvæmdinni, að framkvæmdin hafi skilgreindan tímaramma og togarinn greiði skipagjöld eins og við viðlegukant væri þar til framkvæmdinni líkur.
 
Hafnarstjóra er falið að gera skriflegt samkomulag við Hringrás hf. ef til framkvæmdarinnar kemur þar sem fyrrnefndar forsendur koma fram. Jafnframt ber Hringrás hf. að leggja fram ábyrgðir sem tryggja viðkomandi forsendur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024