Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 3. október 2001 kl. 09:35

Vilja öflugt samstarf við Íslendinga á sviði orkumála

Fyrr á þessu ári var undirrituð viljayfirlýsing iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta ríkisstjórnar Kaliforníu og íslenska ríkisins um samstarf á sviði orkumála með sérstöku tilliti til vistvænna orkugjafa. Í yfirlýsingunni segir að tilgangurinn sé að koma á gagnkvæmum tengslum ráðuneyta landanna með það fyrir augum að efla og taka þátt í þróun umhverfisvænna orkugjafa um alla Kaliforníu og auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Hitaveita Suðurnesja er fyrirtæki sem hefur mikla sérþekkingu á nýtingu jarðvarma og möguleiki er á að fyrirtækið komi inn í þetta samstarf en að sögn Hjálmars Árnsonar, alþingismanns og formanns iðnaðarnefndar, eiga Suðurnesin gríðarlega möguleika á þessu sviði í framtíðinni.
Hjálmar segir að með þessum formlega samningi milli Kaliforníu og íslenskra stjórnvalda er opnað fyrir möguleika á víðtæku samstarfi. Frumkvæðið kemur frá svokölluðum Enex hópi, sem er sameignarfyrirtæki í eigu íslenskra fyrirtækja og stofnana á sviði orkumála. Að sögn Hjálmars ræðst framhaldið svo af því hversu opnir einstaklingar og fyrirtæki verða við að leita sér sóknarfæra.
„Inn í þessa umræður hefur blandast vetnisáform okkar Íslendinga sem Kalifornímenn eu spenntir fyrir. Ég hef fundað með nokkrum aðilum þaðan um jarðvarma, vetni og aðra skylda en vistvæna orkugjafa. Síðast hitti ég m.a. aðalráðgjafas ríkisstjóra Kaliforníufylkis. Þeir líta svo á að Ísland sé leiðandi í heiminum varðandi vetni og vistvæna orkugjafa en Kalifornía leiði Bandaríkin. Þess vegna vilja þeir ná góðu og öflugu samstarfi. Hitaveita Suðurnesja býr yfir mjög miklu hugviti á sviði jarðvarma og við erum í alvarlegum viðræðum um að varnarstöðin á Suðurnesjum verði tilraunavettvangur Bandaríkjamanna á sviði vetnistækni. Þegar þetta tvennt er skoðað saman er auðsjáanlegt að Suðurnesin eiga gífurlega möguleika ef rétt er á haldið.
Hörður Már Kristjánsson er framkvæmdastjóri Enex segir að nokkrir aðilar hafi sýnt áhuga á samstarfi á sviði rannsókna og jarðborgana, og við byggingu og rekstur gufuorkuveitu. Í Kaliforníu er mikil orka neðanjarðar en Kaliforníubúar hafa hingað til einblínt eingöngu á rafmagnsframleiðslu og fjölnýta ekki orkuna eins og Íslendingar gera.
Þess má geta að í næstu viku mun þingmannanefnd á vegum NATO funda í Svartsengi m.a. til að kynna sér vetni og jarðvarma á Íslandi. Þá verður hér í vikulokin þingmannanefnd á vegum ESB og Orkusamtaka Evrópu til að kynna sér sömu mál. Af þessu má glöggt sjá að Ísland er að mörgu leyti í fararbroddi á sviði vistvænna orkunýtingar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024