Vilja koma húsnæði Íbúðalánasjóðs í leigu
Íbúðalánasjóður (ÍLS) á hlutfallslega flestar eignir á Suðurnesjum. Skv. mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs frá mars 2014 átti sjóðurin 814 eignir á Suðurnesjum, þar af eru 423 í söluferli, rúmlega 325 í leigu, 46 standa auðar og 7 eru óíbúðaræfar og 13 í vinnslu. Íbúðalánasjóður á samtals 2111 íbúðir á landinu öllu þannig að hlutfall íbúða á Suðurnesjum er tæplega 38,5% allra eigna sjóðsins.
Í Reykjanesbæ er skortur á leiguhúsnæði, bæði á almennum markaði og í félagslega kerfinu. Margar húseignir í eigu ÍLS hafa staðið auðar mánuðum og jafnvel árum saman. Þær grotna niður og eru nágrönnum til ama. Það er hægt að finna lausn á þessu máli, þ.e. koma ónotuðu húsnæði í eigu ÍLS í leigu.
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, lagði fyrir bæjarráð tillögu í tveimur liðum.
Í a) lið leggur Kristinn til að bæjarstjóri hefji viðræður við félags- og húsnæðismálaráðherra og Íbúðalánasjóð með það að markmiði að koma íbúðum í eigu ÍLS í leigu. Tillagan var samþykkt og bæjarstjóra falið að vinna að málinu.
Í síðari lið tillögunnar lagði Kristinn til að skipaður verði starfshópur Reykjanesbæjar til viðræðna við ÍLS, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra, verkalýðsfélög og lífeyrissjóði með það að markmiði að stofna samvinnufélag um húsnæðissamvinnufélag. Tilgangur slíks félags yrði að tryggja fjölskyldum og einstaklingum trygga langtímaleigu á íbúðarhúsnæði. Þessi tillaga fékkst ekki samþykkt þrátt fyrir brýna þörf á ódýrara leiguhúsnæði til langstíma. Framsókn mun þó halda áfram að beita sér í málinu og fylgja tillögunni eftir, segir í tilkynningu frá Framsókn í Reykjanesbæ.