Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Vilja innrétta líknardeild í gömlu skurðstofuálmu HSS
Föstudagur 17. apríl 2009 kl. 19:55

Vilja innrétta líknardeild í gömlu skurðstofuálmu HSS

- sólarhringsbakvaktir hjúkrunarfræðinga hefjast 1. maí

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur fengið fjármuni frá ríkinu til þess að efla heimahjúkrun/heimahlynningu á Suðurnesjum. Þann 1. maí nk. hefja hjúkrunarfræðingar sólarhringsbakvaktir og við það verður þjónusta stóraukin. Þá er mikill vilji til þess að innrétta líknardeild í gömlu skurðstofuálmu sjúkrahússins og stórefla þar þjónustu við m.a. langveika og deyjandi sjúklinga. Víkurfréttir tóku hús á þeim Sigurði Árnasyni lækni og deildarstjórunum Rósu Víkingsdóttur og Bryndísi Guðbrandsdóttur. Þau skýrðu fyrir lesendum þær hugmyndir og breytingar sem eru í farvatninu.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur á undanförnum árum fært áherslu í þjónustu við aldraða og langveika frá legudeildum stofnunarinnar og út í samfélagið og reynt að sinna þeim sem mest heima. Með tilkomu D-deildar HSS gat stofnunin farið að sinna bráðveikum öldruðum og veiku fólki meira á heimaslóð í stað þess  að senda það unnvörpum til Reykjavíkur.


Auka lífsgæði aldraðra og sjúkra

Sigurður Árnason krabbameinslæknir sinnir líknandi meðferð á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Samstarf hans og Bryndísar Guðbrandsdóttur, deildarstjóra heimahjúkrunar, hófst fyrir 5-6 árum en þar með var lögð meiri áhersla á að sinna öldruðum með einkenni heima og auka lífsgæði þeirra. Þetta hefur undið upp á sig með þeim hætti að 12-14 rúma A-deild HSS, þar sem Rósa Víkingsdóttir deildarstjóri ræður ríkjum, , hefur boðið upp á hvíldarinnlagnir þar sem sjúkir aldraðir geta lagst inn tímabundið í t.d. 2-4 vikur. Þar fær fólkið ýmiskonar endurhæfingu en er síðan sinnt áfram heima. Þá er einnig boðið upp á endurhæfingu fyrir aðra ss fólk sem hefur brotnað, er með langvinna lungnasjúkdóma og svo framvegis. Á þennan hátt hefur reynst auðveldara en áður að rjúfa einangrun langveikra og aldraðra. Meira en níu af hverjum tíu þeirra sem nýta þjónustu A-deildar eru aldraðir, þ.e. 67 ára og eldri.

Heimahjúkrun hefur vaxið mjög á síðustu misserum og samvinnu við félagsþjónustuna hefur aukist. Í dag njóta á milli 150-175 fjölskyldur þjónustu heimahjúkrunar á hverjum tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Heimilisleg líknardeild

Starfsmenn HSS hafa spurt sig nú í kreppunni hvernig þeir geti aukið þjónustu við aldraða og langveika. Sú hugmynd kom upp að tengja A-deildina meira við heimahjúkrunina og raungera þá hugmynd að gera hluta af þessari einingu að líknardeild. Þar horfa þau Bryndís, Rósa og Sigurður til þess að fá inni í þeirri álmu Heilbrigðisstofnunarinnar sem áður hýsti gömlu skurðstofurnar og koma þar upp heimilislegri líknardeild. Þar væri starfsemin afmörkuð frá A-deildinni sem er innar á ganginum, en öll aðstaða og umhverfi verði þægilegt fyrir hinn sjúka og fjölskyldu hans.

Líknandi meðferð er mjög víðtæk og felst ekki bara í að lina þjáningar vegna verkja eða einkenna, heldur einnig víðtækari þjónusta, eins og að liðsinna hinum deyjandi á heildrænan hátt. Þ.e. líkamlega, andlega og félagslega t.d. með því að leiða saman ættingja og fleira í þeim dúr. Mörg dæmi eru um þætti umönnunar hefðu mátt betur fara þegar grannt er skoðað.  Í vel þróaðri starfsemi líknardeildar er m.a. markmiðið að taka snemma á sem flestum málum.

Sama fólkið aðstoðar heima og á HSS

Með nánari samstarfi heimahlynningar og A-deildar sinnir sama fólkið skjólstæðingum heimavið og á A-deildinni. Markmið þessa fyrirkomulags er að lágamark það að hinn aldraði eða sjúki þurfi sífellt að venjast nýjum einstaklingum.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur nú fengið fjármuni frá ríkinu til uppbyggingar á þessum málaflokki og því var ákveðið að nýta fjármunina enn betur með því að straumlínulaga þau verkfæri sem stofnunin hefur, s.s. heimahlynningu, endurhæfingu og líkn. Bráðveikir sjúklingar verða áfram á D-deildinni en koma yfir á A-deildina eftir þörfum og öfugt.

Starfsfólki HSS er hins vegar ljóst að þessar breytingar verða ekki gerðar nema með verulegum stuðningi samfélagsins. Innandyra á Heilbrigðisstofnuninni þarf þó ekki að ráðast í miklar framkvæmdir vegna þessa. Skipta þarf t.d. um gólfefni í álmu gömlu skurðstofunnar, mála veggi og gera hana heimilislegri  svo eitthvað sé nefnt. Þá þarf að koma fyrir húsgögnum sem stofnunin á ekki til í dag og því er nú biðlað til einstaklinga og félagasamtaka að leggja málefninu lið. Með lágmarks tilkostnaði sjá þau Sigurður, Bryndís og Rósa að hægt sé að koma upp einingu sem á eftir að þjóna samfélaginu betur og auka nærþjónustu til muna.



Sinna fólki í heimabyggð


Hugmyndirnar ganga út á það að sinna fólki eins vel og unnt er í þeirra heimabyggð, að veita nærsjúkraþjónustu. Það er ekki bara draumur að fá gömlu skurðstofuálmuna, það sé ætlunarverk, hvort sem það gerist í dag, á morgun, eða með haustinu. Það verður ekki í fljótu bragðir séð að álman nýtist betur í annað. Á henni eru stórir gluggar og það eru mikil lífsgæði að hafa gott útsýni og sjá út í garðana fyrir utan húsið en ekki bara horfa í hvíta sjúkrahúsveggi.

Deildin verði ekki bráðasjúkradeild eins og D-deildin, og þar með er unnt að gera hana heimilislegri og gera aðstæður fyrir aðstandendur betri.

Í dag eru 41 einstaklingur á biðlista eftir hjúkunarrými á Suðurnesjum og eins og staðan er nú þá er hætt við að einhver bið verði á því að byggt verði nýtt hjúkrunarheimili á svæðinu.
Stefnt er að því að hefja starfsemi nýju deildarinnar að eins miklu  leyti og unnt er eftir nýju vinnufyrirkomulagi þann 1. maí nk.. Af niðurskurðarástæðum verður deildin þó lokuð vegna sumarleyfa í sex vikur í sumar, en hjúkrunarfræðingar munu hefja störf á sólarhringsbakvöktum þann 1. maí.  Frá þeim tímapunkti verður stóraukin sjúkraþjónusta við Suðurnesjamenn.


Efsta myndin:
Bryndís Guðbrandsdóttir, deildarstjóri heimahjúkrunar, Sigurður Árnason, krabbameinslæknir og Rósa Víkingsdóttir deildarstjóri A-deildar inni á gömlu skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún myndi nýtast vel sem fjölskylduherbergi í líknardeild, þar sem aðbúnaður yrði allur sem heimilislegastur.


Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson