Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vilja höfuðstöðvar HS Orku til Grindavíkur
Mánudagur 28. desember 2009 kl. 10:37

Vilja höfuðstöðvar HS Orku til Grindavíkur


Bæjaryfirvöldum í Grindavík virðist vera full alvara í því að fá höfuðstöðvar HS Orku til bæjarins en forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa í tvígang vakið máls á þessu við fulltrúa HS Orku. Forstjóri HS Orku segir í orðsendingu að ef til þess komi sé sjálfsagt og eðlilegt að ræða þessar hugmyndir Grindvíkinga. Sú umræða sé þó með öllu ótímabær þar sem engar tímaáætlanir né ákvarðanir um slíkt liggi fyrir.

Eins og vf.is greindi frá fyrir nokkru er komin meiri þíða í samningaviðræður Grindvíkinga og HS Orku um auðlindamálin eftir að HS Orka samþykkti þá kröfu Grindvíkinga að smærri og meðalstór fyrirtæki í Grindavík hefðu forgang að orku úr landi sveitarfélagsins umfram álverið í Helguvík. En það er fleira sem Grindvíkingar vilja ræða, meðal annars flutningur höfuðstöðva HS Orku til Grindavíkur.

Í kjölfar fréttar vf.is um málið skrifaði Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, orðsendingu á heimasíðu félagsins þar sem hann staðfestir að fulltrúar Grindvíkinga hafi orðað þetta á tveimur fundum með fulltrúum HS Orku og Magma Energy.

„Svör HS Orku hf voru efnislega á báðum fundunum á þá leið að engin umræða hefði átt sér stað um breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er um samstarf og samvinnu við HS Veitur hf. Jafnframt var sagt að ef það fyrirkomulag kæmi til endurskoðunar þá væri sjálfsagt og eðlilegt að þessar hugmyndir Grindvíkinga væru meðal þeirra atriða sem tekið yrði tillit til sem og annarra kosta. Engar tímaáætlanir né heldur ákvarðanir um að skoða slíkt liggja fyrir og því má segja að umræða á þessu stigi um flutninga sé með öllu ótímabær,“ segir Júlíus m.a. í orðsendingunni.

Orsendingin er birt á heimasíðu HS Orku og er hægt að nálgast hér

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Grindavík