Vilja frekar sæstreng eða jarðstreng að Helguvíkurálveri
Minnihlutinn í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs leggur á það áherslu að frekar verði farin sú leið að tengja raforku til álvers í Helguvík með sæstreng eða jarðstreng, frekar en að leggja háspennulínur með tilheyrandi möstrum yfir Mánagrund og að landi Sandgerðisbæjar. Bæjarstjórn Sandgerðis hefur einnig lagst gegn því að háspennulínur verði lagðar um land Sandgerðis.
Í bókun minnihlutans í Garði með fundargerð skipulags- og byggingarnefndar segir: „Með þeim breytingum á Aðalskipulagi sem nú er lagt fram til samþykktar er stigið enn eitt mikilvægt skref í þá átt að álver rísi í nágrenni Helguvíkur.
Þetta Aðalskipulag hefur þann ókost að lagt er til að háspennulínur, með tilheyrandi möstrum, verði lagðar frá álverinu þvert yfir Mánagrund í átt að landi Sandgerðis. Þetta er aðeins einn af þremur kostum sem skoðaðir hafa verið og er sá kostur sem við teljum síst koma til greina.
Hinir kostirnir eru lagning sæstrengs og/eða jarðstrengja og eru þetta kostirnir sem nauðsynlegt er að leggja áherslu á að verði farnir.
Þar sem ákvörðun um hvaða kostur verður fyrir valinu, hefur ekki verið tekinn, munum við samþykkja skipulagið í því trausti að skynsamlegasti og besti kosturinn, íbúunum til heilla, verði valinn.“
Mynd: Hugsanleg staðsetning álvers á Hólmsbergi við Helguvík. Minnihlutinn í Garði vill að orka til álversins verði flutt um sæ- eða jarðstrengi en ekki um háspennumöstur sem myndu liggja þvert yfir Mánagrundina. Samsett mynd af Víkurfréttum.