Fréttir

Vilja flytja félagsmiðstöð og stækka tónlistarskóla
Mánudagur 24. apríl 2017 kl. 10:40

Vilja flytja félagsmiðstöð og stækka tónlistarskóla

Starfshópur um húsnæðismál Tónlistarskólans í Garði hefur skilað hugmyndum til bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs til lausnar á húsnæðismálum skólans.
 
Í hugmyndum starfshópsins kemur fram að leitað verði samninga við eiganda húsnæðis að Heiðartúni 2d um kaup á húsnæðinu. Gangi það eftir fái Félagsmiðstöðin Eldingin húsnæðið til afnota. Leitast verði við að aðstaða Auðarstofu, tómstundastarfs aldraðra í Heiðartúni 2 b og c verði að einhverju leyti samnýtt með félagsmiðstöð og aðstaða félagsmiðstöðvar að einhverju leyti samnýtt með félagsstarfi aldraðra.  
 
Gengið verði í að gera nauðsynlegar breytingar á húsnæði í Sæborgu þannig að Tónlistarskóli fái allt það húsnæði til afnota fyrir starfsemi tónlistarskólans. Unnin hefur verið frumhönnun um breytingar á húsnæðinu, lagt er til að hönnun verði lokið hið fyrsta. Unnið verði að því markmiði að félagsmiðstöðin verði flutt í Heiðartún hið fyrsta og að kennsla í tónlistarskóla geti hafist í breyttu húsnæði í Sæborgu við upphaf skólastarfs í haust.  
 
Frumáætlun um kostnað við framangreint gerir ráð fyrir að heildarkostnaður gæti orðið allt að 50 milljónir á árinu 2017. Í fjárhagsáætlun ársins er fjárheimild kr. 25 milljónir.  
 
Bæjarráð Garðs samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að leggja til við bæjarstjórn að tillaga starfshópsins verði samþykkt. Bæjarstjóra var falið að láta vinna nánari kostnaðaráætlun um verkefnið og leggja fyrir bæjarráð tillögu um fjármögnun þess.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024