Vilja fjölga körlum meðal leikskólakennara
Dagur leikskólans í leikskólunum í Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði verður tileinkaður fjölgun karla í kennslu yngri barna. Þeir verða því boðnir sérstaklega velkomnir á opið hús sem leikskólarnir halda föstudaginn 5. febrúar milli kl. 9:00 og 11:00. Þetta kemur fram á vef Reykjanesbæjar.
Leikskólakennarastéttin er að langstærstum hluta kvennastétt og því verður lögð áhersla á að fjölga karlmönnum í stéttinni. Sem kunnugt er er Haraldur Freyr Gíslason leikskólakennari og tónlistarmaður formaður Félags leikskólakennara og því góð fyrirmynd fyrir unga menn sem vilja mennta sig í leikskólakennarafræðum.
Hvatningaverðlaunin Orðspor verða veitt í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís 5. febrúar kl. 13:30. Hvatningaverðlaunin Orðsporið verða í ár veitt þeim sem hefur eða hafa lagt sitt af mörkum við að fjölga körlum í leikskólum landsins. Á sama tíma verða úrslit í samkeppni um besta tónlistarmyndbandið kynnt en þar var markmiðið að varpa ljósi á mikilvægi náms og starfs í leikskólum landsins.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.