Vilja fasteignaskatt af olíutönkum í Helguvík
Sveitarfélagið Garður mun fara þess á leit að utanríkisráðherra vinni að því að Sveitarfélagið Garður geti lagt fasteignarskatt á olíutankana í Helguvík sem nú eru í borgaralegum notum. Meðal annars kom fram á síðasta fundi bæjarstjórnar í Garði að mannvirki í eigu Atlantshafsbandalagsins munu áfram undanþegin fasteignarsköttum á grundvelli c-liðar 1. mgr. 5.gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Einnig er getið um friðhelgi og forréttindi alþjóðastofnana í lögum nr. 98/1992.
Lagt var til á fundi bæjarstjórnarinnar að bæjarstjóra sé falið að senda þingmönnum Suðurkjördæmis ábendingar bæjarstjórnar Garðs um ríka ástæðu til endurskoðunar á að olíutankar í Helguvík séu undanþegnir öllum opinberum gjöldum, þar sem olíutankarnir séu nú í borgaralegum notum. Einnig er bæjarstjóra veitt heimild til að leita álits umboðsmanns alþingis á málinu.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson / Olíubirgðastöðin í Helguvík, sem nú hefur verið tekin til borgaralegra nota og af þeim vill Sveitarfélagið Garður fá fasteignaskatta.